Í jólablaði félagsins má m.a. finna eftirfarandi uppskriftir, en í ár fengum við Hríseyinginn Lindu Maríu Ásgeirsdóttur, sem á og rekur veitingahúsið Verbúðina 66 í Hrísey ásamt eiginmanni sínum Ómari Hlynssyni, til að gefa lesendum blaðsins uppskriftir. Verbúðin 66 er veitingastaður í Hrísey sem var opnaður í mars 2016. „Við erum með opið um helgar yfir veturinn og alla daga yfir sumarið. Núna eru jólahlaðborð, skötuveisla og fleiri jólatengdir viðburðir. Það er yfirleitt eitthvað um vera í hverjum mánuði í vetur, kótilettukvöld, konukvöld, karlakvöld, pub quiz, kaffihlaðborð og fleira,“ segir Linda María.
Linda María sem opnaði veitingastaðinn í tilefni fimmtugsafmælis síns segir að nafnið Verbúðin 66 sé til komið vegna þess að hún er fædd árið 1966, „auk þess sem 66. breiddargráða liggur í gegnum Hrísey og svo er staðurinn niður við sjóinn þar sem áður stóðu verbúðir,“ segir Linda María og bætir við að þetta sé með því skemmtilegra sem hún hefur gert um ævina. Linda María segir eyjaskeggja duglega að fara út að borða. „Hingað koma líka Akureyringar og mikið af erlendum ferðamönnum sem koma gjarnan með gönghópum. Okkar matseðill er frekar einfaldur. Við leggjum mesta áherslu á fisk og erum bæði með fiskisúpu og djúpsteiktan fisk. Það er voðalega gaman að lesa eftir útlendinga á Trip Advisor að þeir hafi fengið besta djúpsteikta fiskinn í Hrísey. Það segir manni að við séum að gera eitthvað rétt.“
Linda María hefur búið stærstan hluta ævi sinnar í Hrísey. „Ég hef prófað að búa annarsstaðar en ég vildi leyfa börnunum mínum að alast upp þar sem ég ólst upp. Hér er hvorki stress né streituvaldandi póstar,“ segir hún og neitar því aðspurð að finna fyrir innilokunarkennd úti í eyju. „Ferjan fer héðan níu sinnum á dag svo það er lítið mál að búa hér og vinna í landi. Maðurinn minn vinnur í bænum og fer með ferjunni að morgni en kemur heim seinni partinn. Þetta er bara spurning hvað maður vill og hvernig maður vill eyða þessum tíma sem maður hefur utan vinnunnar.“
Uppáhaldsmaturinn er fiskur og hér eru tvær uppáhaldsuppskriftir sem eru oft fiskur dagsins.
Hvannarkryddaðir þorskhnakkar með kartöflum, salati og hvítlaukssósu
hnakkar kryddaðir með salti, pipar og hvönn smá smjörklípa sett yfir. eldað í 200 °heitum ofni í 8 - 10 min fer eftir þykkt, borið fram með kartöflum, salati, hvítlaukssóu og/eða sweet chili sósu.
Rjómafiskur
Veltið fiskinum upp úr mjölblöndu (ég nota spelt og kókoshveiti eða möndlumjöl) kryddaðri með salti, pipar og töfrakryddi frá Pottagöldrum. Steikið fiskinn á pönnu, takið af pönnunni og svissið lauk og sveppi bætið við smá slettu af vatni og leysið teninginn upp, síðan er rjóma hellt yfir (bara nota nógu mikið hann er svo hollur og góður) og fiskinum raðað á pönnuna og látið malla í nokkrar mínútur. Borðað með hrísgrjónum eða kartöflum og salati.
Kjötkaka bóndans (Uppskrift að kjötköku sem er tilvalin mánudagsmáltíð).
Kartöflurnar eru flysjaðar og skornar í mjög þunnar sneiðar og þeim velt upp úr olíu. Raða þriðjungi af kartöflunum í botninn á eldföstu móti, helmingur af hakkinu sett ofan á það, síðan aftur kartöflur og svo hakk og restin af kartöflunum ofan á. Gott er að setja vel af osti yfir og baka í 175° heitum ofni í 40 - 45 mín eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Gott að skipta út og setja sætar kartöflur í staðinn.
Tómatsósu kjúklingur á laugardegi
Kjúkling raðað í eldfast mót.
Tómatsósa, pipar, karrý, salt og rjómi hrært saman og sósunni hellt yfir kjúllann.
Eldað við 200° í 20 - 30 mín eða þar til kjötið hefur náð 70° hita.
Rabarbarapie besti eftirrétturinn frá Birnu Maríu…..
(Eiga ekki allir frosinn rabarbara í kistunni.)
Blandað saman og sett í form
blandað saman og mulið yfir formið
Bakað í miðjum ofni við 200° í ca 45 mínútur.
Frábært með þeyttum rjóma eða ís.
Vinsælasti eftirrétturinn á Verbúðinni 66.