Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði 2,7% árið 2014, 3,3% árið 2015 en 2,5-2,9% árin 2016 til 2018. Fjárfesting er talin aukast um 14% árið 2014, 18,7% árið 2015 og 14,6% árið 2016, en gert ráð fyrir að stóriðjufjárfesting dragist saman árin 2017 og 2018 sem leiðir til þess að fjárfesting stendur í stað þau ár. Einkaneysla jókst lítið 2013 en reiknað er með að hún aukist um 3,9% 2014, 4% árið 2015 en um og yfir 3% á ári eftir það. Hóflegur vöxtur samneyslu verður á fyrstu árum spátímans eða 1,8% árið 2014 og um 1,5% árlega eftir það. Mikill vöxtur neyslu og fjárfestingar árin 2014-2016 leiðir til þess að þjóðarútgjöld aukast um 4,7% árið 2014, 5,6% árið 2015, 5,1% árið 2016 en mun minna eftir það.
Verðbólga verður 2,2% árið 2014, nokkuð undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Spáð er að verðbólga verði 2,7% árið 2015, 3% árið 2016 en fari í 2,6% árið 2018. Vöru- og þjónustujöfnuður verður jákvæður allan spátímann en minnkar með aukinni neyslu og fjárfestingu.
Talsverð óvissa er um þróun launa og verðlags árið 2015 vegna kjarasamninga sem þá losna. Gert er ráð fyrir nokkru meiri launahækkunum á almennum vinnumarkaði en í gildandi samningum en að lítil verðbólga auki líkur á hóflegum launabreytingum.
Lækkun á greiðslubyrði húsnæðislána vegna skuldalækkunaraðgerða stjórnvalda myndar svigrúm til aukinnar einkaneyslu á spátímabilinu.
Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 4. júlí síðastliðinn og er næsta útgáfa ráðgerð í apríl 2015.
Þjóðhagsspá, vetur 2014 - Hagtíðindi