Samkvæmt nýrri hagspá ASÍ má vænta þess að hagvöxtur verði 3,5% á þessu ári, 2,6% á næsta ári og 1,7% árið 2020. Töluverð umsvif hafa verið í efnahagslífinu á þessu ári en merki eru um að hægja muni á vextinum yfir spátímann. Samsetning fjármunamyndunar mun þó taka breytingum þar sem hægja mun á fjárfestingum atvinnuveganna en fjárfesting í íbúðum og hjá hinu opinbera munu fara vaxandi.
Spáin felur í sér mjúka lendingu hagkerfisins með hóflegum vexti þjóðarútgjalda og minnkandi vexti útflutnings. Veiking gengis krónunnar hefur hins vegar sett þrýsting á verðbólgu sem mun fara vaxandi fram á næsta ár. Efnahagsleg óvissa hefur því aukist.
Verulega hefur hægt á fjölgun ferðamanna en þó ferðamönnum fjölgi enn hefur dregið úr dvalarlengd þeirra, neysluhegðun hefur breyst og eyðsla þeirra minnkað. Vísbendingar eru um að sú þróun komi verr niður á jaðarsvæðum. Samkvæmt spá hagdeildar ASÍ verður 3,6% vöxtur á útflutningi á þessu ári og að jafnaði 2,4% vöxtur á árunum 2019-2020. Það er ljóst að hægari fjölgun ferðamanna felur í sér breytta tíma í ferðaþjónustu og þó þessi þróun sé ekki að öllu leyti óvænt verður það engu að síður áskorun fyrir ferðaþjónustu að aðlagast nýjum veruleika.
Vöxtur einkaneyslunnar hefur verið kraftmikill undanfarin ár og ekki óvænt að í lok hagsveiflunnar dragi úr þeim vexti. Einkaneyslan verður engu að síður um 17% meiri í lok spátímans heldur en árið 2007. Dregið hefur úr væntingum heimilanna á efnahags- og atvinnuhorfur og líklegt að heimilin sýni varúð í stórum neysluútgjöldum. ASÍ spáir 4,8% vexti einkaneyslunnar á þessu ári en gerir ráð fyrir að hægja muni á þeim vexti á komandi misserum. Einkaneyslan eykst því um 2,6% á næsta ári og 1,5% árið 2020 gangi spá hagdeildar ASÍ eftir.
Verðbólguhorfur hafa versnað undanfarin misseri og verðlagsþróun hefur tekið breytingum frá síðasta ári þegar verðhjöðnun ríkti þegar horft var framhjá áhrifum húsnæðis. Sú þróun skýrðist m.a. af styrkingu gengis krónunnar, hagfelldri þróun hrávöruverðs og aukinni samkeppni á matvörumarkaði. Nú hefur dregið úr hækkunum á húsnæðisverði en verðbólguþrýstingur er orðinn sýnilegur á mörgum undirliðum vísitölu neysluverðs. Dagvara hefur hækkað um 3,4% milli ára og hækkun olíverðs hafði leitt til 16% hækkunar bensínverðs milli ára í október.
Gengi krónunnar hefur veikst um yfir 12% frá byrjun ágúst og Evran hækkað um 15 kr á sama tíma, úr 123 kr. í 138 kr. og gengið því ekki verið veikara frá ágúst 2016. Hagdeildin telur að veiking krónunnar ýti undir frekari hækkun vísitölu neysluverðs. Þróun gengis krónunnar er þó bundin mikilli óvissu. Meðalverðbólga á þessu ári verður 2,7% og gangi spá hagdeildar eftir má búast við að verðbólga verði um 3,7% á næsta ári. Það væri mesta hækkun verðlags frá árinu 2013 þegar verðbólgamældist 3,9% á ársgrundvelli.
Aukið framboð nýs húsnæðis, minni þensla og aukin óvissa um efnahagshorfur hafa vafalaust slegið á þá miklu spennu sem myndaðist á húsnæðimarkað á síðasta ári. Húsnæðisverð hafði í september hækkað um 3,9% milli ára eða 0,6% milli mánaða. Framboð nýs húsnæðis mun aukast á næstu misserum þar sem íbúðafjárfesting eykst um fjórðung á þessu ári og um 15,9% á næsta ári og 8,6% árið 2020. Húsnæðisverð er hins vegar sögulega hátt og því sjaldan verið erfiðara fyrir nýja kaupendur að koma inn á markaðinn. Eigendur húsnæðis hafa notið góðs af þróuninni undanfarin ár. Þeirra staða hefur batnað samhliða verðhækkunum, lágri verðbólgu og sögulega lágum langtímavöxtum.
Gríðarlegur munur er á stöðu eigenda húsnæðis og þeirra sem eiga ekki. Staða leigjenda er þröng á flesta mælikvarða. Leiguverð hefur hækkað um 90% umfram launfrá 2011. Á sama tímabili hafa laun hækkað um 74% og þar af lægstu laun um 82%. Samkvæmt nýlegri könnun ÍLS leigir meirihluti af nauðsyn, þ.e. leigjendur geta ekki safnað fyrir útborgun í eigin íbúð eða eignast eigið húsnæði. Þriðjungur leigjanda notar meira en helming ráðstöfunartekna í leigu.
Þróun efnahagsmála á þessu ári hefur verið áþekk því sem hagdeild ASÍ spáði í sinni síðustu spá. Hagdeildin telur að hagvöxtur verði 3,5% á þessu ári en gerði ráð fyrir 3,3% í síðustu spá. Jafnframt er útlit fyrir 2,7% verðbólgu á þessu ári en gamla spáin gerði ráð fyrir 2,6% verðbólgu. Eldri verðbólguspá fyrir 2019 gerði ráð fyrir 2,9% verðbólgu en nú telur hagdeildin að verðbólgan verði 3,7% 2019 og þar munar mestu um veikingu krónunnar.