Verkalýðshreyfingin hefur ávallt lagt ríka áherslu á húsnæðismál, haft frumkvæði að mótun og endurreisn félagslegs leiguíbúðakerfis og beitt sér fyrir því að byggt verði upp varanlegt og traust kerfi. Í nýafstöðnum kjaraviðræðum náðist mikilvægur áfangi í þessum efnum, meðal helstu atriða í innleggi ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana er aukið fjármagn til húsnæðismála. Sérstaklega er tekið fram að unnið verði með aðilum vinnumarkaðarins að leiðum til að auðvelda ungu fólki fyrstu kaup, auk þess sem núverandi nýting til séreignarsparnaðar verði framlengd.
Fjórðungur í leiguhúsnæði
Það er ekki að ástæðulausu að verkalýðshreyfingin berst fyrir því að stórátak verði gert í húsnæðismálum. Húsnæðisvandi þeirra tekjulægstu er gríðarlegur og hið opinbera verður að styðja við fólk sem vill eignast húsnæði og sömuleiðis verður að stórbæta réttarstöðu þeirra sem leigja húsnæði. Samkvæmt könnun sem Gallup gerði meðal félagsmanna Einingar-Iðju á síðasta ári, bjuggu 24,9% félagsmanna í leiguhúsnæði og 13,3% í foreldrahúsum.
Framkvæmdir hafnar á Akureyri
Bjarg íbúðafélag var stofnað af ASÍ og BSRB í lok árs 2016. Félagið er rekið án hagnaðarsjónarmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu á hagstæðu verði. Bjarg stefnir að því að byggja hagkvæmar, vel hannaðar íbúðir víða um land, meðal annars á Eyjafjarðarsvæðinu. Á Akureyri er stefnt að byggingu 75 íbúða. Framkvæmdir við byggingu fjölbýlishúss við Gudmannshaga 2 á Akureyri hófust nýverið. Í húsinu verða rúmlega þrjátíu íbúðir og verða þær tilbúnar til afhendingar eftir rúmt ár, nú þegar hafa 50 manns lagt inn umsókn um íbúð. Þetta er merkur áfangi og víst er að íbúðirnar koma að góðum notum.
Eining-Iðja mun áfram leggja lóð á vogarskálarnar, þannig að þetta brýna hagsmunamál verði að veruleika á félagssvæðinu. Samkvæmt könnun sem Gallup gerði, styðja langflestir félagsmenn aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að byggingu félagslegra íbúða.
Allar upplýsingar á heimasíðu Bjargs
Á heimasíðu Bjargs má finna ýmsar upplýsingar um félagið, m.a. hvernig á að sækja um íbúð og eins má finna þar fjölda svara við spurningum sem geta komið upp ef fólk er að hugsa um að sækja um íbúð hjá Bjargi. Á heimasíðunni eru meðal annars ítarlegar úthlutunarreglur. Eingöngu fullgildir félagsmenn ASÍ og BSRB koma til greina við úthlutun íbúðanna. Þá segir í úthlutunarreglunum að greiðslubyrgði leigu skuli að jafnaði ekki fara umfram 25%-30% af heildartekjum leigutaka að teknu tilliti til húsnæðisbóta.
Þar sem framkvæmdir eru nú hafnar á Akureyri er full ástæða til að óska verkafólki til hamingju með þennan góða áfanga í húsnæðismálum. Stofnun Bjargs er stórt framfaraskref á íslenskum húsnæðismarkaði, sem sannarlega þarf að taka tillit til tekjulágra fjölskyldna.
Höfundur er formaður Einingar-Iðju og formaður Starfsgreinasambands Íslands.