Í nýrri skýrslu sem hagdeild ASÍ hefur sent frá sér kemur fram að útgjöld til heilbrigðismála hér á landi hafa aukist mun hægar en í nágrannalöndum og litlu fé er varið til uppbyggingar í innviðum kerfisins. Heilbrigðisútgjöld uxu hlutfallslega lítið á uppsveiflu árunum 2005-2009, mun minna en í nágrannalöndum og drógust svo hlutfallslega mikið saman á árunum eftir hrun. Heimilin juku samt sem áður útgjöld sín til heilbrigðismála fyrstu árin eftir hrun meðan framlög hins opinbera drógust saman. Þetta hefur leitt til þess að kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu er orðin allt of mikil.
Hagdeild ASÍ gaf fyrr á þessu ári út skýrslu þar sem greiðsluþátttöku sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu voru gerð skil. Í ljós kom að mikil fjárhagsleg byrði fylgir því að veikjast hér á landi og voru tekin raunveruleg dæmi þar sem meðferðir við sjúkdómum gátu kostað allt að hálfri milljón. Með þessari nýju skýrslu er ætlunin að skoða nánar hvernig heilbrigðiskerfið er fjármagnað, en útgjöld til heilbrigðismála koma annars vegar úr sameiginlegum sjóðum hins opinbera í gegnum skattkerfið og hins vegar með beinni greiðsluþátttöku sjúklinga. Þróunin undanfarin ár hefur verið þannig að hlutur heimilanna hefur vaxið mun hraðar en þáttur hins opinbera.