Í gær fór fram almennur félagsfundur í Tjarnarborg í Ólafsfirði, þar sem m.a. var kosið um svæðisfulltrúa og varamann hans. Á fundinn mættu frá skrifstofu félagsins á Akureyri Björn Snæbjörnsson formaður, Anna Júlíusdóttir varaformaður, Elsa Sigmundsdóttir, ráðgjafi hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði, og Ásgrímur Örn Hallgrímsson, upplýsingafulltrúi félagsins.
Í byrjun fundar flutti Hafdís svæðisfulltrúi skýrslu stjórnar og að því loknu fór fram kosning svæðisfulltrúa og varamanns. Enginn bauð sig fram gegn sitjandi svæðisfulltrúa og varamanni og því mun Hafdís Kristjánsdóttir sitja áfram sem svæðisfulltrúi félagsins í Ólafsfirði og Anna Sigríður Pálmadóttir sem varamaður hennar. Svæðisfulltrúar eru kosnir til tveggja ára í senn og sitja í stjórn Einingar-Iðju, en varamenn svæðisfulltrúa eru sjálfkjörnir í trúnaðarráð félagsins.
Að lokinni kosningu sagði Elsa frá starfsemi VIRK, rifjaði m.a. upp söguna, útskýrði vinnuferlana og sagði frá þeim mikla árangri sem náðst hefur. Þá sagði Björn frá starfsemi félagsins, könnun sem Capacent gerði fyrir félagið í vetur og minnti á fræðslustyrkina. Hann fjallaði einnig um samkomulag um framlengingu kjarasamninga og sagði að undirbúningsvinna fyrir næstu kjarasamninga fari af stað fljótlega. Að lokum sagði Ásgrímur frá Afsláttarkorti AN.