Á heimasíðu ASÍ segir að ýmsar spurningar hafi vaknað hjá launafólki og launagreiðendum vegna þeirra breytinga sem verða á mótframlagi atvinnurekenda frá og með júlílaunum og jafnframt hefur orðið vart við nokkurn misskilning sem mikilvægt er að leiðrétta. Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð á almennum vinnumarkaði hækkaði þann 1. júlí 2017 um 1,5% og er nú 10%. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs nemur því nú samtals 14% sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 10% mótframlag atvinnurekenda.
Síðasti áfangi hækkunar á mótframlagi atvinnurekenda kemur síðan til framkvæmda þann 1. júlí 2018 en þá hækkar framlagið um 1,5% til viðbótar og verður þá 11,5%. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs mun frá 1. júlí 2018 nema samtals 15,5% sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekenda.
Sjóðfélagar hafa nú val um hvernig þeir ráðstafa hækkun mótframlagsins. Þeir geta ráðstafað því í tilgreindan séreignarsparnað með samningi við sinn lífeyrissjóð eða nýtt það til að auka tryggingavernd sína til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris í samtryggingu.
Hækkun mótframlags atvinnurekenda byggir á kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og SA frá janúar 2016 og þar er að finna ákvörðun um hvernig með skuli fara.
Hvert á að greiða hækkað mótframlag atvinnurekenda?
Atvinnurekenda er skylt að greiða hækkað mótframlagi til þess lífeyrissjóðs sem skylduiðgjaldið hefur verið greitt til. Þetta þýðir að greiða ber 14% frá 1. júlí 2017 og 15,5% frá 1. júlí 2018 til skyldutryggingarsjóðs. Atvinnurekendi getur ekki ákveðið að greiða hækkað mótframlag í séreign heldur getur sjóðsfélagi tekið ákvörðun um að greiða það í tilgreinda séreign í samskiptum við sinn lífeyrissjóð.
Þarft þú að taka ákvörðun um ráðstöfun hækkaðs mótframlags atvinnurekanda núna?
Hver og einn launamaður ákveður sjálfur ráðstöfun hækkunar mótframlagsins, allt að 3,5% af launum, í tilgreinda séreign eða samtryggingu.
Viljir þú að hækkun mótframlags atvinnurekanda fari í tilgreinda séreign getur þú haft samband við þinn skyldutryggingarsjóð og gengið frá yfirlýsingu þar að lútandi. Hafir þú ekki samband við lífeyrissjóðinn þinn til að setja hækkun mótframlagsins eða hluta þess í tilgreinda séreign rennur það í samtryggingu og réttindi þín þar aukast.
Þú getur síðan hvenær sem er ákveðið að breyta ráðstöfun hækkunar mótframlags atvinnurekanda, úr samtryggingu í tilgreinda séreign að öllu leyti eða að hluta, eða úr tilgreindri séreign í samtryggingu. Breytingin tekur þá gild frá þeim tíma, en er ekki afturvirk.
Allar frekari upplýsingar um áhrif ráðstöfunar hækkunar mótframlags atvinnurekanda á lífeyrisréttindin má nálgast á heimasíðum viðkomandi skyldutryggingarsjóðs og á heimasíðu ASÍ.