„Ég finn fyrir mikilli samstöðu í tengslum við kjarabaráttuna. Það er sama við hvern maður talar, allir segja að kröfur Starfsgreinasambandsins séu réttlátar. Það getur ekki verið sanngjarnt að heilu starfsstéttirnar þurfi að vinna mikla yfirvinnu til þess að geta lifað eðlilegu lífi. Krafan um hækkn dagvinnulauna er þess vegna stóra málið í mínum huga,“ Segir Jóhanna María Baldursdóttir, sem starfar hjá ISS-Akureyri. Hún er trúnaðarmaður á sínum vinnustað.
„Mér sýnist stefna í verkföll, Samtök atvinnulífsins segja að allt fari á hausinn með því að hækka lægstu launin. Auðvitað vill enginn fara í verkfall, en krafa Starfsgreinasambandsins er skýr og sanngjörn. Það dugar alls ekki að hækka lægstu launin um einhver örfá prósent, eins og Samtök atvinnulífsins hafa boðið. Þess vegna er svo mikilvægt að allir kjósi um fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir og sýni þannig samstöðu. Sjálf er ég reyndar ekki búin að kjósa, en geri það örugglega fyrir helgi. Ég hef gert upp minn hug og þurfti ekki langan umhugsunartíma til þess, segir Jóhanna María Baldursdóttir.“