Á heimasíðu ASÍ kemur fram að mikill verðmunur sé á smurþjónustu fyrir bíla. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði hjá 29 þjónustuaðilum þann 23. október sl. Kannað var verð á þjónustu við fjórar stærðir bíla; smábíl, meðalbíl, jeppling og jeppa. Barðinn og Sólning reyndust ódýrastir í þremur flokkum af fjórum. Mestur verðmunur á hæsta og lægsta verði var á jeppling, t.d. Suzuki Grand Vitara, rúmlega 9.420 krónur eða 323%.
Smurning fyrir smábíl var ódýrust á 2.475 kr. hjá Barðanum og Sólningu en var dýrust á 8.340 kr. hjá BL Kauptúni sem er kr. 5.865 verðmunur eða 237%. Smurning fyrir meðalbíl var ódýrust á 2.475 kr. hjá Barðanum og Sólningu en var dýrust á 8.820 kr. hjá Öskju sem er 6.345 kr. verðmunur eða 256%.
Mestur verðmunur á þessari þjónustu var fyrir jeppling sem var ódýrust kr. 2.920 hjá Barðanum og Sólningu en dýrust 12.340 kr. hjá Kraftbílum Akureyri sem er rúmlega 9.420 kr. verðmunur eða 323%. Þjónusta við stóra jeppa var ódýrust á 3.600 kr. hjá Kvikkfix en dýrust á 12.340 kr. hjá Kraftbílum sem er 8.740 kr. verðmunur eða 243%.
Verðkönnunin nær einungis til þjónustu smurstöðvanna og eru engin efni innifalin í verðinu. Innifalið í uppgefnum verðum eru að lágmarki eftirtaldir liðir: Skipti á olíu á vél, skipti á olíusíu, smurning á lömum, athugun á loftsíu og rúðuvökva. Benda má á að þjónuskoðun smurstöðva í smurningu er töluvert lengri en listin sem verðlagseftirlitið var með og suma bíla er flóknara að smyrja en aðra.
Max 1, Brimborg, Dekkjahöllin, Bifreiðaverkstæði Grafarvogs, Vélrás, Pústþjónusta BJB, Toyota
bílaverkstæði Austurlandi, og Smur, bón og dekkjaþjónustan gerðu verðlagseftirlitinu ókleift að framkvæma
verðkönnun.
Sjá nánar niðurstöður í töflu.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.