Í gær hélt félagið fund með trúnaðarmönnum félagsins sem starfa hjá sveitarfélögum á svæðinu. Mjög góð mæting var á fundinn, sem fram fór í sal félagsins á Akureyri, þrátt fyrir vont veður, af þeim sökum komst t.d. enginn frá Siglufirði á fundinn.
Á fundinum fór Björn formaður félagsins yfir kröfugerð Starfsgreinasambandsins og vinnu við hana en mjög margt sem er í henni er ættað úr vinnu félagsins frá því sl. vor þegar farið var mjög ítarlega yfir samninginn með trúnaðarmönnum og fleirum. Einnig var skipað í bakhópa vegna komandi samningaviðræðna. Mjög góðar umræður urðu á fundinum um kröfugerðina og komandi viðræður við Samband íslenska sveitarfélaga.