Góðgæti frá Grenivík

Í jólablaði félagsins sem borið var í hús í síðustu viku má m.a. finna eftirfarandi uppskriftir, en í ár var Sigurður Gauti Benediktsson, matreiðslumaður og eigandi Kontorins á Grenivík, fenginn til að gefa lesendum blaðsins hátíðaruppskrift.

Kontorinn er lítill veitingastaður í hjarta Grenivíkur, þetta er dag frá degi opið kaffihús og grill þar sem menn geta fengið allt frá hamborgurum, samlokum, kjúklingasalati og kökum með kaffinu. Einnig hefur það verið siður hjá þeim að elda heimilislegan hádegisverð. Kontorinn gerir út örlitla veisluþjónustu og hafa verið að taka á móti allskyns hópum, t.d. fyrirtækjahópum í hópeflisferðum. Staðurinn er með lítinn sal sem leigður er út fyrir fundi og minni hópa í mat og kaffi. Eins og áður segir er matreiðslumaður og eigandi staðarins Sigurður Gauti Benediktsson og koma þessar uppskriftir úr hans safni. 

Aðalréttur

  • 2 stk. andabringur
  • Kínverskt five spice
  • Sætkartafla
  • Smjör
  • 1 bacon bréf
  • 2 stk. Jóna gold epli
  • Rósmarin
  • Hvítlaukur
  • Rifsberjahlaup
  • Portvín
  • Andakraftur 

Skerið eins og 3 millimetra djúpar rákir í fituna á bringunum og setjið þær á þurra pönnu, alls ekki nota olíu. Steikið þar til fitan er orðin þunn og gullinbrún, snúið þá bringunum við og brúnið þær á hinni hliðinni í smá stund. Takið þær af pönnunni og kryddið vel með five spice og smá salti.

Öndin þarf síðan að fá að hvíla í góðar 10 mínútur áður en hún fer inn í ofn á 150c° í um 15-20 mínútur, fer eftir smekk hversu vel menn vilja hafa öndina eldaða. Síðan er öndin látin hvíla í um 15 mínútur áður en hún er skorin og borin fram.

Sætkartöflumús

Skrælið sæta kartöflu, skerið í teninga, sjóðið í vatni með smá smjöri og salti. Sigtið síðan vatnið frá og hrærið kartöflunum saman með písk og bætið örlitlu smjöri og salt ef þar. 

Bacon og epli

Skerið bacon í litla bita, skerið eplin í litla bita, steikið baconið á pönnu þar til það byrjar að brúnast. Setjið þá eplin út á pönnuna og leyfið því að malla saman í góða stund en hrærið stöðugt svo það brenni ekki, gott að lækka hitan aðeins undir. Hellið þessu síðan á fat. Setjið vatn á pönnuna og sjóðið upp á öllu bragðinu sem eftir situr í pönnuni eftir steikinguna og hellið því svo út í sósuna. 

Sósa

Byrjaðu strax að gera sósuna og leyfðu henni að malla á vægum hita á meðan þú brasar við allt hitt. Í hana þarftu 3 dl. dökkt portvín, ferskt rósmarin saxað, sirka 1½ msk, 2-3 hvítlauksgeira saxaða, 1,5 lítra vatn og 1-1½ msk andakraft og eina krukku af ribsberjahlaupi. Leyfið þessu að sjóða niður um 1/3 og þykkið síðan með sósujafnara og smakkið til með salti og pipar. 

Desert

Ekta heit súkkulaðikaka með blautum kjarna.

  • 50 gr brætt smjör, til að pensla formin
  • Kakóduft, til að dusta inn í formin
  • 200 gr suðusúkkulaði saxað smátt
  • 200 gr smjör í teningum
  • 200 gr sykur
  • 4 heil egg og 4 eggjarauður til viðbótar
  • 200 gr hveiti 

Í þessari uppskrift notum við svo kölluð suffleé form sem eru á stærð við bolla. Byrjið á því að pensla formin að innan með smjöri og sigta síðan kakó yfir þau svo kakóið þeki formin vel að innan. Gott er að banka úr þeim lausa kakóið.

Síðan skulið þið setja skál yfir pott með tæplega sjóðandi vatni og bræða saman smjörið og súkkulaðið í henni. Leggið skálina til hliðar þegar allt er bráðið saman og orðið silkimjúkt.

Þeytið saman í hrærivél eggin, eggjarauðurnar og sykurinn þar til útkoman verður létt og ljós. Sigtið síðan hveitið út í og þeytið saman. Hellið síðan súkkulaðibráðinni út í, í skömmtum og þeytið vel á milli þar til allt er komið saman.

Skiptið síðan deiginu í formin og setjið inn í kæli í að minsta kosti 20 mínútur eða lengur. Tilvalið er að undirbúa þetta deginum áður og geyma í kæli þar til á að baka. Hitið ofn í 200C°, takið formin beint úr kæli og setjið inn í heitan ofnin í nákvæmlega 10 mínútur. Takið kökurnar út og leyfið þeim að hvíla í um 1 mínútu. Síðan skal hvolfa þeim úr forminu á diska og bera fram með góðum ís og karamellusósu.