Í október og nóvember sl. framkvæmdi Capacent Gallup launa- og þjónustukönnun fyrir Einingu-Iðju, í samstarfi við AFL starfsgreinafélag. Könnunin byggir á svörum 904 félagsmanna en 1.500 manns voru í úrtakinu og var því svarhlutfall 63,4%, sem er mun betri þátttaka en í könnun sem gerð var í fyrra.
Samkvæmt könnuninni hafa heildarlaun félagsmanna hækkað um 5,2% á milli ára og dagvinnulaun um 6,4% á sama tíma. Tæp 56% svarenda sögðust hafa nýtt sér einhverja þjónustu hjá félaginu undanfarna 12 mánuði. 91,5 % sögðust vera sáttir eða hvorki né er spurt var hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur við Einingu-Iðju og rúm 95% merktu við ánægður eða hvorki né er spurt var hversu ánægður eða óánægður ertu með þjónustu Einingar-Iðju þegar á heildina væri litið. Þetta eru aðeins betri niðurstöður en í sambærilegri könnun sem framkvæmd var á síðasta ári.
Nánar verður greint frá niðurstöðum könnunarinnar á næstu dögum og eftir jól.
Hringt var í félagsmenn og þeim boðið að taka þátt í könnuninni á netinu eða í síma. 83% svarenda í Einingu-Iðju svöruðu á netinu og 17% í síma. 45% svarenda voru karlar en 55% konur. Rúmlega 27% svarenda voru undir 25 ára aldri, um 19% voru á aldrinum 25-34 ára, tæplega 17% voru á aldrinum 35-44 ára, um 20% á aldrinum 45-54 ára og 18% voru 55 ára eða eldri.