Í nýjustu kjarakönnun félagsins voru margir þættir kannaðir, m.a. um líðan í starfi.
27% sögðust vera mjög ánægðir í starfi og 51% sögðust vera frekar ánægðir. Þessi afgerandi niðurstaða er um margt ánægjuleg, því líðan í starfi og á vinnustað hefur mikil áhrif á líðan okkar almennt. Samt sem áður, ef miðað er við síðasta ár, sýnir könnunin að færri félagsmenn eru ánægðir í sínu starfi nú en þá.
Vinnan og virk þátttaka á vinnumarkaði er einn mikilvægasti þátturinn í lífi sérhvers einstaklings. Þegar spurt var um hvort svarendur væru sammála þeirri fullyrðingu að samskipti á vinnustaðnum væru opin og heiðarleg, sögðust 77% vera því sammála og 84% sögðust geta leitað til næsta yfirmanns, ef þess gerðist þörf.
16,6% svarenda telja sig búa við óheilsusamlegt starfsumhverfi sem er aðeins meira en í síðustu könnun. Það eru frekar karlar sem eru á þessari skoðun, eða um 21%, en um 12% kvenna.
Rannsókn sem þessi er afar gagnleg og getur félagið stuðst við niðurstöðurnar á mörgum sviðum til hagsbóta fyrir félagsmenn.
Undanfarin ár hefur Eining-Iðja fengið Gallup til að gera umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir meðal félagsmanna. Þessar kannanir eru sambærilegar könnunum sem nokkur önnur félög innan verkalýðshreyfingarinnar hafa látið gera.
Niðurstöðurnar eru afar gagnlegar fyrir félagið því markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör og bættan aðbúnað við vinnu. Einnig þarf að gæta þess að áunnin réttindi séu virt.
Stjórn félagins vill þakka öllum þeim sem þátt tóku í launakönnun félagsins.