Útgerðarfyrirtækið Gjögur hf. á Grenivík greiddi starfsfólki sínu í landvinnslu 300.000 krónur auk orlofs í afkomubónus nú í desember. Upphæðin miðast við fullt starf og greiðist hlutfallslega út frá starfshlutfalli og starfstíma á árinu. Tilefnið er góð afkoma landvinnslunnar á Grenivík á árinu. Einnig fá starfsmenn veglega jólagjöf frá fyrirtækinu.
Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, fagnar þessu og hvetur önnur fyrirtæki að gera slíkt hið sama.
Nýlega var sagt frá því að Samherji hefði greitt landsvinnslufólki 378 þúsund krónur í desemberuppbót. Samherji greiddi aukalega 72 þúsund krónur í orlofsuppbót til starfsmanna í maí og greiðir því 450 þúsund krónur á hvern starfsmann umfram kjarasamninga á árinu.