Gjaldskrárbreytingar sveitarfélaga

Í Morgunblaðinu í dag er frétt þar sem fjallað er um samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á gjaldskrám sveitarfélaga. Samantektin leiðir í ljós að sveitarfélögin hækkuðu gjaldskrár sínar um áramótin. Af einstökum gjaldskrárliðum má nefna að gjald í mötuneytum grunnskóla hækkar um 17,5% í Reykjanesbæ og sorphirða í Hafnarfirði hækkar um 17%. Þá hækka gjöld vegna útlána á bókum í Garðabæ um fimmtung milli ára.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins (SGS), segir í fréttinni að hann hafi átti von á meiri gjaldskrárhækkunum hjá sveitarfélögunum en raun ber vitni. „Mér sýnist menn hafa haldið að sér höndum. Þetta er minni hækkun en ég átti von á. Almennt eru hækkanirnar innan ákveðins ramma. Einstaka liðir, eins og sundlaugakort, hækka þó meira. Akureyri kemur einna verst út úr þessu,“ segir Björn og vísar m.a. til þess að dvalartími á leikskóla á Akureyri hækkar um 7% á nýju ári eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Spurður hvaða áhrif þessar gjaldskrárhækkanir muni hafa á launakröfur í komandi kjarasamningum segir Björn að þær verði hafðar til hliðsjónar. „Ég átti von á meiri hækkunum í prósentum sem hefði þá þýtt meira inn í kröfugerðina.“
– Eykur þetta líkur á hófsömum kjarasamningum í vor? „Nei. Við erum ekki búin að gera launakröfur. Þetta er eitthvað sem við skoðum í leiðinni þegar það verður gert. Það er ýmislegt annað sem hefur hækkað mikið. Aðrir hafa fengið launahækkanir sem við tökum tillit til. Ef menn stilla hækkunum í hóf er það líka metið. Ef það hefðu verið umtalsvert meiri gjaldskrárhækkanir hefði það haft meiri áhrif á kjarasamninga en þessar hækkanir munu kannski hafa.“


Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir í fréttinni í Morgunblaðinu að gjaldskrárhækkanirnar ekki koma á óvart. „Hér er verið að hækka álögur á íbúa þessa lands. Miðað við að verðbólgan er 0,8% er varla hægt að segja að þetta sé í takt við verðlagsþróun. Þetta eru því hækkanir að raungildi.

Fyrir rúmu ári tóku sveitarfélögin áskorun okkar um að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf. Flest þeirra féllu frá fyrirhuguðum hækkunum til þess að leggja kjarasamningum á hóflegum nótum lið og skapa forsendur fyrir verðbólguþróun sem yrði okkur öllum hagfelld. Það gekk verr að fá stjórnvöld með í þá vegferð. Þau höfðu ákveðið gjaldskrárhækkanir og keyrðu þær í gegn en drógu svo til baka að hluta,“ segir Gylfi og rifjar upp forsöguna.

Hann óttast meiri hækkanir. „Það mátti hverjum vera ljóst þegar búið var að ganga frá kjarasamningum kennara, fyrst í framhaldsskólum og í framhaldinu í grunnskólum, leikskólum og nú síðast í tónlistarskólum, að sveitarfélögin myndu hafa allar klær úti til að afla tekna til að standa undir þeim kjarasamningum. Við erum að sjá fyrstu birtingarmynd þess.“

„Þetta eru auðvitað aðeins gjaldskrárbreytingar. Sveitarfélögin eru með brúttó-skattstofn sem heitir útsvar. Þau munu væntanlega hagnast á þeim tekjuauka sem er í landinu; laun eru auðvitað að hækka mikið. Það skilar sér til sveitarfélaganna.
Fasteignamatið er að hækka en það á eftir að koma í ljós hvað sveitarfélögin gera við skattprósentuna. Það er svigrúm til hækkana á fasteignaskatti á atvinnulífið og heimilin. Nánast öll sveitarfélög eru í toppi hvað varðar útsvar. Þar er því ekki hægt að auka álögur á íbúa með því að hækka útsvar. Fæst sveitarfélög eru hins vegar í hámarki varðandi fasteignagjöld,“ segir Gylfi.