Ein helsta krafa verkalýðshreyfingarinnar á hendur ríkinu í tengslum við kjaraviðræðurnar, sem nú standa yfir, er að breyta skattkerfinu, enda sýna útreikningar Alþýðusambands Íslands að skattbyrði launafólks hefur á undanförnum árum aukist og bitnað harðast á tekjulægri hópum samfélagsins. Ástæðan er þróun skattkerfisins og „veikingar svokallaðra tilfærslukerfa“, það er að segja tekjutengdar bætur almannatryggingakerfisins og húsnæðisbætur.
Það er óumdeilt að skattkerfinu er ætlað að gegna lykilhlutverki í að draga úr ójöfnuði, krafan er þess vegna sjálfsögð og eðlileg.
Tillögur verkalýðshreyfingarinnar miðast við að tekið verði upp þrepaskipt skattkerfi með fjórum skattþrepum, fjórða þrepið yrðu hátekjuþrep. Krafan er að skattleysismörkin verði hækkuð og fylgi launaþróun, þannig að breytingarnar auki ráðstöfunartekjur þeirra sem eru með undir 500 þúsund krónum í laun á mánuði.
Miðað við þessar tillögur verður skattbyrðin á efri millitekjur óbreytt en eykst hins vegar hjá þeim tekjuhæstu.
Tillögurnar þýða í raun að breytingar á skattkerfinu hefðu jákvæð áhrif eða hlutlaus á 95% einstaklinga á vinnumarkaði. Skattbyrðin ykist hjá 5% einstaklinganna, þ.e.a.s. hjá þeim sem yrðu í hátekjuþrepinu.
Með þessum tillögum er tekjuskattskerfið gert að raunverulegu jöfnunartæki.
Tillögurnar
Eins og fyrr segir munu skattatillögur verkalýðshreyfingarinnar bæta stöðu 95% launafólks. Lítum fyrst á tillögurnar varðandi jöfnunarhlutverk tekjuskattskerfisins:
Verkalýðshreyfingin vill að barnabótakerfið verði eflt til muna, þannig að það styðji við meginþorra barnafjölskyldna en ekki aðeins allra tekjulægstu eins og staðan er í dag. Vaxta- og barnabótakerfin hafa verið veikt mikið á undanförnum árum, sem hefur eðlilega bitnað harðast á þeim tekjulægstu.
Verkalýðshreyfingin vill sömuleiðis að húsnæðisstuðningskerfin verði endurreist, enda hefur stuðningur hins opinbera rýrnað mjög á undanförnum árum. Fasteigna- og leiguverð hefur sömuleiðis hækkað gríðarlega með þeim afleiðingum að almennt launafólk stendur vart undir kostnaðinum. Þessi staða eykur á ójöfnuðinn í þjóðfélaginu.
Boltinn er hjá stjórnvöldum
Gallup hefur á undanförnum árum gert launakannanir fyrir Einingu-Iðju, þar sem félagsmenn eru spurðir um ýmsa þætti kjaramála. Í lok nýliðins árs var slík könnun gerð og meðal annars spurt hvort launamunur milli fólks hafi almennt aukist eða minnkað á síðustu fimm árum á Íslandi. Niðurstaðan var afgerandi, 80,1% svöruðu því til að launamunur hafi aukist á þessum árum. Niðurstaðan er afdráttarlaus, rétt eins og verkalýðshreyfingin hefur bent á í gegnum tíðina.
Segja má að boltinn sé nú hjá stjórnvöldum. Krafan hreyfingarinnar er skýr, taka verður upp sanngjarnt skattkerfi sem stuðlar að jöfnuði.
Síðustu árin hafa leikið láglauna- og millitekjufólk grátt og misrétti hefur aukist til mikilla muna. Við slíkt er ekki hægt að una lengur.
Gerum tekjuskattskerfið að raunverulegu jöfnunartæki.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands