Gáttin - ársrit um framhaldsfræðslu

Nýlega kom Gáttin, ársrit um framhaldsfræðslu, út í fjórtánda sinn en Gáttin er vettvangur umræðu um nám fullorðinna og starfsmenntun á Íslandi og er gefin út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ár hvert í tengslum við ársfund fræðslumiðstöðvarinnar. Markmið ársritsins er að efla umræðu um framhaldsfræðslu á Íslandi. Enn fremur safna saman og miðla reynslu og kynna það sem efst er á baugi í kennslufræðum, kenningum, námsleiðum, nýjum bókum, gögnum, tækjum og vefsíðum.

Gáttina má nálgast hér.

Ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins var haldin að Grand Hótel 30.nóvember sl. og sóttu tæp 80 manns fundinn. Yfirskrift fundarins var Hæfnistefna til hvers? Fundurinn var haldinn í samstarfi við Norrænt tengslanet um nám fullorðinna, NVL. Aðalfyrirlesari var Gina Lund, framkvæmdastjóri Færnistofnunarinnar í Noregi (Kompetanse Norge) en hún kynnti vinnu við mótun hæfnistefnu Norðmanna sem og stefnuna sjálfa. Fundastjóri var Eyrún Valsdóttir, varaformaður stjórnar FA en hún hélt einnig erindi. Þá voru fyrirmyndum í námi fullorðina veittar viðurkenningar og pallborðsumræðum þar sem umræðuefnið var tilgangur hæfnistefnu og hvort Íslendingar ættu að fara að fordæmi Norðmanna í gerð hæfnistefnu og spurningum úr sal svarað. María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF stjórnaði umræðum en þátttakendur voru Þorsteinn Víglundsson, alþingismaður og fyrrverandi ráðherra, Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnissviðs SA, Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, Sólveig Lilja Snæbjörnsdóttir, fagstjóri starfsmenntamála VR og Sigrún Árnadóttir, verkefnastjóri Hölda.