Undanfarin ár hefur Eining-Iðja fengið Gallup til að gera umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir meðal félagsmanna. Þessar kannanir eru sambærilegar könnunum sem nokkur önnur félög innan verkalýðshreyfingarinnar hafa látið gera. Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar ársins.
Í könnuninni voru margir þættir kannaðir, m.a. var spurt um starfsumhverfið.
- 43,2% voru frá vinnu einn dag eða meira vegna eigin veikinda eða vinnuslyss á síðustu þremur mánuðum miðað við 44% í fyrra og 43,2% árið 2017.
- Í fyrra var í fyrsta sinn spurt hvort vinnuálagið væri of mikið. Þá sögðu 54,5% að það væri hæfilegt, 44,1% að það væri of mikið og 1,1% að það væri of lítið. Núna sögðu 57,6% að það væri hæfilegt, 38,1% að það væri of mikið og 4,3% að það væri of lítið.
- 74,4% segja að samskipti á þeirra vinnustað séu opin og heiðarleg, en 13,3% voru ekki á þeirri skoðun. Í fyrra var niðurstaðan 70,8% og 11,7%.
- 87,3% sögðust geta leitað til næsta yfirmanns ef viðkomandi þyrfti á því að halda, en 6,3% voru því ósammála. Í fyrra var niðurstaðan 84% og 6,4%.
- 79,3% sögðu að öryggi þeirra væri tryggt í vinnunni, en 7,4% voru því ósammála. Í fyrra var niðurstaðan 82,8% og 5,5%.
Niðurstöðurnar eru afar gagnlegar fyrir félagið því markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör og bættan aðbúnað við vinnu. Einnig þarf að gæta þess að áunnin réttindi séu virt.
Stjórn félagins vill þakka öllum þeim sem þátt tóku í launakönnun félagsins í ár.