Gallup hefur á undanförnum árum gert umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir fyrir Einingu-Iðju. Margir þættir eru skoðaðir og eru niðurstöðurnar afar gagnlegar fyrir félagið, því markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna. Slík könnun var gerð fyrr í vetur, ellefta árið í röð, og liggja niðurstöður nú fyrir og eru þær væntanlegar inn á vef félagsins.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að í heildina sé mikil jákvæðni í niðurstöðum könnunarinnar en undirliggjandi eru áhyggjur um fjárhagsstöðu. „Það er alltaf fróðlegt að skoða niðurstöðurnar og að bera þær saman við niðurstöður síðustu ára til að sjá hvort miklar breytingar hafa átt sér stað. Það er margt ánægjulegt við niðurstöður þessarar nýju könnunar, t.d. það að í ljós kom að launahækkunin sem kom 1. janúar 2021 var að skila sér og rúmlega það. Taxtahækkunin var upp á kr. 24.000 en það virðist vera sem hækkunin milli ára sé um 31.000. Það er mjög ánægjulegt.“
Mjög mikil ánægja með félagið
Samkvæmt könnuninni er mjög mikil ánægja með félagið sem og þjónustu Einingar-Iðju. Björn segir að félagsmenn séu mjög virkir og að það sé mjög ánægjulegt að sjá hve ánægðir þeir séu með það sem félagið er að gera. „Bæði varðandi þjónustuna og félagið sjálft, félagsmenn treysta líka félaginu vel. Það er ákveðin stefna hjá okkur að bæta þjónustuna, vera virkari og sífellt betri fyrir félagsmennina. Niðurstöðurnar staðfesta að við erum á réttri leið og greinilegt er að mjög margir félagsmenn meta okkar starf.“
Fjárhagsáhyggjur að aukast
Björn segir að það sé sorglegt að sjá að fjárhagsáhyggjur séu aftur á uppleið. „Við sjáum að það er líka aftur að aukast að félagsmenn þurfi að fresta því að fara til læknis, tannlæknis eða ná í lyf. Þetta er sorgleg staða, en sérstaklega virðist þetta eiga við um yngra fólkið, barnafjölskyldurnar. Við fengum einmitt þær fréttir um daginn að umsóknir um jólaaðstoð hjá Velferðarsjóði Eyjafjarðar voru heldur fleiri í ár en og í fyrra sem var algjört met ár. Félagið hefur í mörg ár styrkt Jólaaðstoðina og afhenti nýlega Velferðarsjóðnum styrk að upphæð kr. 1.000.000. Þeir fjármunir hafa nýst vel til aðstoðar þeim fjölmörgu sem þurfa að leita eftir aðstoð.“
Mjög skýr skilaboð
Björn segir að í sambandi við komandi kjarasamninga þá hafi félagið fengið mjög skýr skilaboð frá þeim félagsmönnum sem tóku þátt. „Þetta virðist vera mjög svipað og kom út úr könnunum hjá okkur fyrir síðustu kjarasamningaviðræður. Menn horfa mikið á skattamálin og persónuafsláttinn. Það er mikill vilji til að auka kaupmátt með hvaða aðgerðum sem er. Það sem skorar frekar hátt gagnvart ríkinu er hækkun barnabóta, þ.e. að meira verði gert fyrir barnafólkið. Líka að auðvelda enn frekar að eignast fyrstu íbúð og slíkt.“
Stjórn félagsins vill þakka öllum þeim sem þátt tóku í viðhorfs- og kjarakönnun félagsins í ár.