Í gær fór fram fundur á Dalvík og í Hrísey sem var samkeyrður í gegnum netið. Um var að ræða fyrsta fund nýstofnaðs svæðisráðs Hríseyjar og Dalvíkurbyggðar. Á fundinum var kosinn nýr svæðisfulltrúi sameinaðs svæðisráðs og varamann hans. Guðrún J. Þorbjarnardóttir, sem var svæðisfulltrúi í Hrísey, bauð sig ein fram í stöðuna og var hún kjörin með lófaklappi. Sigríður Þ. Jósepsdóttir, var var svæðisfulltrúi Dalvíkurbyggðar, var sú eina sem bauð sig fram til varamanns og var hún einnig kjörin með lófaklappi.
Að kjöri loknu tók Guðrún til máls og sagði m.a. að hún og Sigríður yrðu í samstarfi. „Ég tel mikilvægt að fulltrúi og varafulltrúi svæðisins komi ekki alltaf frá sama staðnum og að hann muni skiptast á milli staðanna.“ Guðrún sagðist hafa verið hugsi yfir ýmsum sameiningum. „Oft á tíðum bitna sameiningar á þeim sem færri eru en ekki alltaf. Hér í kvöld höfum við sínt fram á að hlutirnir þurfa ekki að vera á þann veg. Það er hægt að hlusta á fámennið og taka tillit til þess. Þess vegna tek ég við með stolti sem fyrsti svæðisfulltrúi sameinaðara svæðisráða Dalvíkur og Hríseyjar.“
Svæðisfulltrúar sitja í aðalstjórn félagsins fyrir hönd síns svæðis og eru varamenn sjálfkjörnir í trúnaðarráð.