Fyrsta skrefið stigið til að stöðva kennitöluflakk

Hægt er að meina sakamönnum sem brjóta á lögum um opinber gjöld að reka fyrirtæki.
Hægt er að meina sakamönnum sem brjóta á lögum um opinber gjöld að reka fyrirtæki.

Alþingi samþykkti fyrr í júní breytingu á almennum hegningarlögum sem hefur það að markmiði að sporna við kennitöluflakki. Í breytingunni felst að hér eftir er hægt að banna þeim sem dæmdir eru fyrir meiriháttar brot á lögum um tekjuskatt eða staðgreiðslu opinberra gjalda að koma að rekstri fyrirtækja eða stofnun þeirra í allt að þrjú ár.

Um er að ræða breytingu á 262. grein hegningarlaga. Við greinina bætist svohljóðandi málsgrein: Nú er maður dæmdur sekur um brot gegn ákvæði þessu og má þá í dómi í sakamáli á hendur honum jafnframt banna honum að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar í slíku félagi í allt að þrjú ár.“

ASÍ vekur athygli á þessu í fréttabréfi þar sem segir að samþykkt frumvarpsins feli í sér fyrsta skrefið í baráttunni gegn kennitöluflakki í íslensku atvinnulífi en að mikilvægt sé að fylgja málinu eftir með frekari lagabreytingum á næsta þingi. Einnig er vísað í sameiginlega umsögn Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um frumvarpið. Í henni kemur fram að samtökin styðji frumvarpið í öllum meginatriðum. „Með því er stigið skref í þá átt að uppræta kennitöluflakk. Nauðsynlegt er að stíga mun stærri skref, m.a. með því að innleiða hér á landi heimild til að geta svipt vanhæfa einstaklinga tímabundið heimild sinni til að reka félag með takmarkaðri ábyrgð (atvinnurekstrarbann) að norrænni fyrirmynd sem er ekki bundin við refsimál og hægt er að ná fram með skjótvirkum hætti. Ekki er eftir neinu að bíða og mikilvægt að frumvarp þess efnis verði lagt fram í upphafi næsta löggjafarþings og að náið samráð verði haft við samtökin enda miklir hagsmunir í húfi.“

Hér má sjá lagabreytinguna í heild