Í gær fór fram fundur í samninganefnd félagsins. Þetta var annar fundur nýrrar samninganefndar félagsins sem kjörin var á rafrænum fundi trúnaðarráðs Einingar-Iðju í nóvember sl. Á fyrsta fundi nefndarinnar sem haldinn var rafrænt í janúar var m.a. rætt um og ákveðið hvernig félagið eigi að standa að undirbúningi næstu kjarasamninga meðal félagsmanna. Á fundinum í gær var m.a. farið yfir niðurstöður könnunar sem Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri gerði nýlega fyrir félagið þar sem félagsmenn voru spurðir út í áherslur í kröfugerð fyrir næstu samninga. Björn formaður sagði að niðurstöður könnunarinnar spegli vel niðurstöður funda sem haldnir voru með trúnaðarmönnum nýlega.
Á fundinum var einnig unnið í hópavinnu. Í fyrri umferð var rætt almennt um hvað ætti að vera í kröfugerð félagsins. Í þeirri seinni var fundarmönnum skipt upp eftir starfsgreinadeildunum þremur og farið yfir hugmyndir að sérkröfum deildanna inni í kröfugerð.
50 félagsmenn og níu varamenn skipa nefndina og eru allir nefndarmenn boðaðir á alla fundi.
Þannig er skipað í nefndina:
Aðalmenn | Varamenn | ||
Aðalstjórn | 7 | 0 | |
Matvæla- og þjónustudeild | 16 | 4 | |
Opinbera deildin | 14 | 3 | |
Iðnaðar- og tækjadeild | 8 | 2 | |
Frá trúnaðarráði | 5 | 0 | |
Samtals | 50 | 9 |