Í síðustu viku hófst fundaherferð með trúnaðarmönnum félagsins. Vegna Covid þurfti að skipta þeim niður í 18 hópa og eftir að neyðarstig almannavarna tók gildi sem og hertar sóttvarnaaðgerðir var ákveðið að fyrstu níu fundirnir yrðu rafrænir. Nú eru þeir búnir og var sú ákvörðun tekin að hafa alla fundina rafræna. Skv. upprunalega fundaplaninu áttu 14 þeirra að vera á Akureyri, tveir í Fjallabyggð, einn á Dalvík og einn á Grenivík.
Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, segir að þeir fundir sem búnir eru hafi tekist mjög vel og ekki síst fyrir það var ákveðið að hafa þá alla rafræna. „Undanfarin ár höfum við haldið fjölmarga vinnustaðafundi en vegna ástandsins í þjóðfélaginu hefur það ekki verið hægt. Með þessum rafrænu fundum náum við að „hitta“ trúnaðarmennina okkar, fá frá þeim upplýsingar um stöðuna á þeirra vinnustað og hvernig við getum betur orðið þeim að liði á þessum tímum. Greinilegt er að andinn er að mestu góður á vinnustöðum. Við heyrum samt oft nefnt að viss þreyta sé komin í starfsmenn en að allir reyni að gera sitt besta á þessum skrítnu tímum.
Við ákváðum að bæta við tveimur fundum í lokin sem verða fyrir þá sem ekki gátu tekið þátt í þeim fundi sem viðkomandi var boðaður á. Annar fundurinn verður fyrir Opinberu deildina en hinn fyrir almenna markaðinn.
Trúnaðarmenn hafa nú sem áður verið duglegir að hafa samband við félagið vegna ýmissa mála sem upp koma og eru ófeimin að koma með spurningar. Við erum mjög þakklát fyrir það því góð samskipti við trúnaðarmenn skipta öllu máli.“