Í gær funduðu Björn formaður og Anna varaformaður með bæjarstjóranum á Akureyri, Eiríki Birni Björgvinssyni, um atvinnuástandið í Hrísey. Fyrr í vikunni fóru Anna og Björn og funduðu með starfsfólki útgerðarfélagsins Hvamms til að fara yfir stöðuna eftir að öllu landverkafólki var sagt upp hjá fyrirtækinu, en það er stærsti atvinnurekandinn í eyjunni. Í framhaldi af þeim fundi var óskað eftir fundi með bæjarstjóranum þar sem Björn og Anna lýstu yfir áhyggjum sínum vegna þess ótrygga atvinnuástands sem er í eyjunni.
Eiríkur sagði m.a. að bæjarráð hefði strax lýst yfir þungum áhyggjum af því ótrygga atvinnuástandi sem íbúar Hríseyjar búa við og sagði frá hvað bærinn væri búinn að gera í málefnum eyjarinnar. Eiríkur sagði einnig frá íbúafundi sem verður í Hrísey fimmtudaginn 20. mars sl. þar sem m.a. verða kynntar niðurstöður málþings um framtíð eyjarinnar sem fram fór sl. haust.