Í morgun flugu sex félagsmenn til Reykjavíkur til að taka þátt í undirbúningi Starfsgreinasambandsins í dag vegna viðræðna
við SA sem fram fara á morgun og hinn. Unnið er í hópum eftir starfsstéttum þar sem endanlega er verið að ganga frá kröfugerð SGS,
sem lögð verður fyrir SA. Að kröfugerðinni standa 16 félög af þeim 19 sem mynda Starfsgreinasambandið. Efling í Reykjavík, Hlíf
í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag standa utan við, en þau mynda svokallað flóabandalag.
Fulltrúarnir sex eru Björn formaður sem er í samningaráði SGS, en það ráð stjórnar vinnunni og ber ábyrgð á
samningagerðinni við SA. Með honum í samningaráðinu eru Hjördís Þóra, formaður AFLs, og Finnbogi, formaður VerkVest. Björn mun
einnig starfa í hóp sem fjallar um veitingahúsa- og gistihúsasamninginn. Anna, varaformaður félagsins, situr í þremur hópum, einn fjallar um
samning vegna fiskvinnslu og fiskeldi, annar um samning vegna mötuneyta og sá þriðji um samning fyrir vaktmenn og vegna vaktavinnu. Þorsteinn starfsmaður
félagsins situr í hóp þar sem fjallað er um iðnað, Ingvar, formaður Iðnaðar- og tækjadeildar félagsins, er í hóp sem
fjallar um tækjamenn, bílstjóra og byggingaverkamenn, Auður sem starfar á Bautanum er í hóp þar sem fjallað er um veitinga- og
gistihúsasamninginn og Tryggvi sem starfar hjá Þrif- og ræstivörum er í hóp þar sem fjallað er um ræstingar.
Það er metnaður félagsins að senda fulltrúa sem eru að starfa í viðkomandi starfsgrein til að fá fram sjónarmið þeirra í vinnu eins og fram hefur farið í dag.