Fræðsludagur og Vefvarp félagsins

Árlegur fræðsludagur Einingar-Iðju fyrir trúnaðarmenn og aðra sem eru í trúnaðarstörfum fyrir félagið fór fram föstudaginn 15. mars sl. Í ár var dagurinn haldinn á Kaffi Rauðku á Siglufirði. Rúmlega 100 félagar tóku þátt í deginum sem tókst í alla staði mjög vel. Dagskrá dagsins var blanda af fyrirlestrum og hópavinnu. Neðst í fréttinni má sjá umfjöllun um daginn í Vefvarpi félagsins, sem er nýjung. 

Fyrir hádegi flutti Sigríður Arnardóttir fjölmiðlakona, betur þekkt sem Sirrý frábæran fyrirlestur sem bar nafnið Að standa á sínu og láta rödd sína heyrast. Næst sagði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, frá styrkjum úr sjúkrasjóði og fræðslustyrkjum sem félagsmenn geta fengið. 

Etir léttan hádegisverð flutti Hjörtur Hjartarson, félagsmálastjóri í Fjallabyggð fyrirlesturinn Úrræði sveitarfélaga eftir að atvinnuleysisréttur klárast – sorgin eða sveitin. Því næst steig Elsa Sigmundsdóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá VIRK í svæðinu, í pontu og sagði frá árangri í starfsendurhæfingu Virk. Aðalsteinn Bergdal leikari sem lenti í mjög alvarlegu bílslysi á árinu 2011 mætti á fræðsludaginn og sagði frá hans upplifun af Virk og hvernig honum finnst þjónustan vera. Alli sagði að kvöldið áður þegar hann var að hugsa um erindið hefði hann spurt sig hvað Virk hefði gert fyrir hann. Stutta útgáfan er Allt, takk fyrir mig. En í aðeins lengra máli þá sagði hann að Virk hefur verið honum eins og góð móðir. Verið honum hvatning til að standa sig, t.d. með góðri eftirfylgni. Alli sagði að jákvæður vilji og jákvætt hugarfar verði að vera með til að árangur náist og það gerir Virk. Vinnan er á jákvæðum nótum og hann mæli hiklaust með Virk við alla sem þurfa á aðstoð að halda.

Í síðasta fyrirlestri dagsins fjallaði Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands um sambandið. Síðasti liður í formlegri dagskrá var hópavinnu. Þá var öllum skipt upp í hópa þar sem rætt var um þjónustu félagsins. Eyrún Björk Valsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar ASÍ og Skólastjóri Félagsmálaskóla alþýðu, hafði yfirumsjón með hópavinnunni.

Að lokinni hópavinnu kynntu forsvarsmenn Rauðku fyrir hópnum starfsemi sína og áætlanir um frekari uppbyggingu á svæðinu. Til dæmis kom fram að nýlega var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hóteli, Hótel Sunnu, sem fyrirtækið er að reisa.

Fleiri myndir má finna hér

Sjá fréttina í Vefvarpi Einingar-Iðju