Nær þrjátíu félagsliðar af öllu landinu hittust á Selfossi 30. mars sl. til að bera saman bækur sínar, fræðast og fjalla um stöðu stéttarinnar. Þar af voru þrjár sem fóru frá Einingu-Iðju. Félagsliðar eru vaxandi stétt en hafa því miður ekki notið þeirrar stöðu sem sjálfsögð er til dæmis með að löggilda starfsheitið félagsliði sem heilbrigðisstétt.
Áskorun hefur verið send á heilbrigðisráðherra í kjölfar bréfaskipta og funda og eru bundnar vonir við að málið nái fram að ganga. Á fræðslufundinum var fjallað um kjarasamninga, starfsmat sveitarfélaganna, áhrif vaktavinnu á heilsu og vellíðan og einnig var erindi um hvernig best sé að rækta sjálfa/n sig. Góður rómur var gerður að fræðsludeginum sem var haldinn í annað sinn á vegum Starfsgreinasambandsins og nú í samstarfi við Félag íslenskra félagsliða. Sterk krafa var um að slíkur dagur skyldi haldinn allavega á árs fresti.