Fræðsla fyrir unga fólkið

Í morgun komu tveir starfsmenn starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks til Akureyrar og kynntu fyrir atvinnurekendum VR-SKÓLA LÍFSINS, sem er nýtt netnámskeið með myndböndum fyrir ungt fólk sem er að skríða út í atvinnulífið. Námskeiðið samanstendur af 13 stuttum myndböndum sem horft er á og svo er nokkrum spurningum svarað á milli. Námskeiðið er opið öllum á aldrinum 16 til 24 ára óháð stéttarfélagi.

Félag verslunar og skrifstofufólks og Eining-Iðja hafa tekið höndum saman og munu standa fyrir verklega hluta þessarar fræðslu á svæðinu, en í lok hvers námskeiðs koma þátttakendur saman, leysa skemmtileg verkefni og fá útskriftarskírteini. Stefnt er að því að í janúar verði staðarlota hér fyrir norðan, það verður nánar auglýst er nær dregur.

Námskeiðið er alls í 14 þáttum þar sem stúlkunni, Líf, er fylgt eftir frá því hún leitar sér að vinnu þar til hún er orðin reynslunni ríkari og örugg í starfi. Ellefu þættir af þessum 14 eru með leiknum myndbrotum, tveir með grafíklausnum og sá síðasti er verklegur. Verklegi hlutinn er aldursskiptur, 16-20 ára eru saman og 21-24 ára sama. Þjálfarar frá Dale Carnegie leggja verkefni fyrir þátttakendur og er áherslan á samskipti. Við skráningu greiða þátttakendur 2.500 kr. og geta ekki skráð sig í verklega hlutann fyrr en þeir hafa farið í gegnum alla þættina og leyst verkefnin í lok hvers þáttar.

Hverjum þætti er skipt upp í þrennt:

  • Eitt myndbrot eða grafísk framsetning 
  • Upplýsingatexti um viðfangsefni viðkomandi þáttar 
  • Spurningar úr efninu

Þátttakendur fylgja línulegu ferli. Þeir komast ekki áfram í náminu fyrr en þeir hafa svarað verkefnunum sem fylgja hverjum þætti fyrir sig. Ef þeir svara a.m.k. 75% rétt opnast aðgangur fyrir næsta þátt á eftir.

Þættirnir eru eftirfarandi (allir nema sá síðasti eru á netinu):

  • Atvinnuleit 
  • Umsóknin 
  • Starfsviðtal 
  • Ráðning 
  • Stéttarfélag og samningar 
  • Starfslýsing 
  • Skyldur starfsmanna 
  • Uppsögn 
  • Vinnutími 
  • Skyldur vinnuveitenda 
  • Launaseðillinn 
  • Kynbundinn launamunur 
  • Ábyrgð
  • Verklegi hlutinn

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu VR-Skóla lífsins eða Facebook

Einnig er hægt að fá nánari upplýsingar hjá FVSA í síma 455 1050 eða á fvsa@fvsa.is eða hjá Ásgrími hjá Einingu-Iðju í síma 460 3600 eða með því að senda póst á asgrimur@ein.is