Fræðsla á velgengnisdögum í MA

Hluti hópsins að hlusta á Þorstein í morgun
Hluti hópsins að hlusta á Þorstein í morgun

Í morgun fór Þorsteinn E. Arnórsson, þjónustufulltrúi hjá félaginu, í Menntaskólann á Akureyri og hélt tvo fyrirlestra fyrir hátt í tvöhundruð nema í 2. bekk. Þarna var hann m.a. að ræða við nemendur um starfsemi Einingar-Iðju, hvernig launaseðill á að líta út og hvaða upplýsingar eiga að koma fram á honum, réttindi og skyldur á vinnumarkaði, lífeyrismál og margt fleira.

Þorsteinn sagði að nemendurnir hefðu verið áhugasamir um erindið, a.m.k. vel flestir, og að fjölmargar og fjölbreyttar spurningar hefðu komið frá þeim. „Eftir bæði erindin komu til mín nokkrir nemendur með áframhaldandi spurningar sem tengjast t.d. sumarvinnunni eða vinnu sem þeir eru í með náminu. Þegar ég fer í skólana með svona kynningu er mjög algengt að fá slíkar spurningar í lok kennslustundar, því ekki vilja allir spyrja persónulegra spurninga fyrir framan allan hópinn.“