Í vikunni stóðu yfir starfsdagar í grunnskólunum á Akureyri og hélt SÍMEY utan um þá fræðslu. Félagið var fengið til að koma þarna inn með fræðslu fyrir okkar félagsmenn og sáu þau Björn, Arnór og Rut um fræðsluna að þessu sinni.
Þau heimsóttu átta grunnskóla og fræddu starfsmennina m.a. um orlofs-, sjúkra- og fræðslusjóði, starfsmatið, persónustigin, Félagsmannasjóðinn og margt fleira.
Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, segir að það sé alltaf gott að fá að koma að fræðslu sem þessari. "Fræðslan sjálf tókst mjög vel og jafnframt er þetta gott tækifæri til að hitta og ræða við okkar félagsmenn. Fjölmargar spurningar komu fram og góðar umræður urðu um ýmis mál sem tengjast þeirra starfi. Það var mjög kærkomið að fá að mæta í skólana og hitta félagsmennina því vegna Covid hefur okkar fræðsla og fundir að mestu farið fram á rafrænan hátt."