Eins og kom fram í fréttinni hér á undan er talningu lokið í atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir. Annars vegar var kosið um verkfallsaðgerðir hjá fólki sem tengist almennum kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og hins vegar hjá fólki sem tengist svokölluðum þjónustusamningi við Samtök atvinnulífsins.
Hjá Einingu-Iðju voru 1.920 á kjörská vegna almenna kjarasamningsins. Alls kusu 1064, sem gerir 55,42 % kjörsókn. JÁ sögðu 994, eða 93,42 %. NEI sögðu 59, eða 5,55 %. Auðir seðlar voru ellefu, eða 1,03 %.
Hjá fólki sem tengist þjónustusamningnum voru 400 á kjörskrá. Alls kusu 130, sem gerir 32,50 % kjörsókn. JÁ sögðu 118, eða 90,77 %. NEI sögðu sjö, eða 5,38 %. Auðir seðlar voru fimm, eða 3,85 %.
Afgerandi niðurstaða
„Ég er mjög sáttur við þátttökuna í atkvæðagreiðslunni, sem sýnir að það er baráttuhugur í fólki. Niðurstaðan er líka afgerandi, um 90% þeirra sem greiddu atvkæði styðja verkfallsaðgerðir. Þessi niðurstaða þjappar okkur saman og sýnir að launafólk vill að staðið verði við sanngjarna kröfugerð,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju. Hann er jafnframt formaður Starfsgreinasambands Íslands.
„Ég þakka öllum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni og ég er stoltur af mínu fólki. Þátttakan var góð og undirstrikar rækilega að hugur er í félagsfólki,“ segir Björn Snæbjörnsson.