Pistillinn að þessu sinni er ritaður á Ísafirði þar sem námskeiðið „Konur taka af skarið“ er haldið en þar kenni ég allt sem vert er að vita um verkalýðsfélög og baráttu þeirra auk þess sem ég hvet konur til þátttöku. Námskeiðið sem er að frumkvæði Akureyrarakademíunnar var haldið í haust á Akureyri en á morgun er komið að Reykjavík. Selfoss tekur svo við 1. mars, Egilsstaðir 2. mars og Borgarnes 3. mars. Eftir að hafa gert það sem er skemmtilegast í heimi, að ræða verkalýðsmál við áhugasamt fólk vonast ég til að ná að kíkja á Byggðasafn Vestfjarða á sýninguna Ég var aldrei barnþar sem stéttabarátta fyrri ára er rakin.
Áhugi á verkalýsbaráttu birtist annars í ýmsum myndum þessa dagana. Þannig mun Listasafn ASÍ opna sýningu Hildigunnar Birgisdóttur, Universal Sugar, á morgun bæði í Garðabæ og í Vestmannaeyjum. Fræðslumál og listir hafa alltaf verið órofa hluti af verkalýðsbaráttunni enda snar þáttur í lífsgæðum fólks.
Vikan hefur annars einkennst af viðræðum við stjórnvöld og óteljandi önnur samtöl, formleg og óformleg um hvernig hægt er að ná sem bestum kjarabótum í viðræðunum sem nú standa yfir. Næsta vika ber vonandi í skauti sér skýrari mynd af stöðunni og hvers er að vænta bæði frá stjórnvöldum og atvinnurekendum. Fólk er auðvitað orðið óþolinmótt og það er vel skiljanlegt, ferlið hefur tekið lengri tíma en ætlunin var en vonandi verður útkoman þeim mun betri og heildarmyndin fyllri.
Af öðrum verkefnum á skrifstofu ASÍ má nefna undirbúningur er í fullum gangi vegna Norrænnar ráðstefnu í tilefni aldarafmælis Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO). Í byrjun apríl má vænta stórskotaliðs frá alþjóða verkalýðshreyfingunni og Norrænum stjórnmálum á þá ráðstefnu til að ræða framtíð vinnumarkaðarins. Fólk sem hefur áhuga á alþjóðlegri verkalýðsbaráttu ætti ekki að láta þennan viðburð fram hjá sér fara. Hægt er að skrá sig hér.
Njótið helgarinnar,
Drífa