Í vikunni kom forysta Starfsgreinasambandsins, þ.e. Björn Snæbjörnsson formaður, Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir varaformaður og Drífa Snædal framkvæmdastjóri í heimsókn til Einingar-Iðju og átti fund með stjórn félagsins. Þau eru nú á ferð um landið til að hitta stjórnir allra aðildarfélaga sambandsins og fjallaði Björn aðeins um af hverju forysta sambandsins væri í þessari ferð. Hann sagði að umfjöllunarfefnið væri m.a. um störf SGS og starfsemi hvers félags fyrir sig, áherslur til framtíðar og annað sem félögin óska eftir að taka til umfjöllunar.
Drífa fjallaði aðeins almennt um SGS og kynnti í stuttu máli hlutverk þess og verkefni. Sagði m.a. að það hefði átt 15 ára afmæli í fyrra, að aðildarfélögin voru 50 í byrjun en eru núna 19. Hún sagði að hryggjarstykkið í starfinu væri auðvitað samningagerð en þess á milli er það t.d. að miðla upplýsingum til félaganna. Hún minntist á starfið sem unnið er með unga fólkinu í hreyfingunni og sagðist vera mjög stolt af því starfi og að það er eitthvað komið til að vera. Hún fjallaði aðeins um formannafundina sem haldnir eru þrisvar á ári en þar eru línurnar lagðar í starfsemi sambandsins. Hún sagði að vel hafi tekist til með fræðsludaga starfsfólks stéttarfélaganna sem hafa farið fram í nokkur skipti, en þá sér sambandið um skipulagninguna eftir óskum starfsmanna stéttarfélaganna. Svo sagði hún einnig aðeins frá þemamánuðunum, fræðsludögum, kjarakönnunum, aðstoð við einstaklinga og aðildarfélög og gerð stofnanasamninga. Drífa sagði líka frá erlendu samstarfi sem sambandið er í, hvernig sú vinna fer fram og hvað kemur út úr þessu samstarfi. Hún fjallaði líka um ýmis sérverkefni sem sambandið tekur þátt í, t.d. aðgerðarhóp um mansal, skoðun aðbúnaðar og kjör hótelþerna með Vinnueftirlitinu næsta vor, rannsókn um kynferðislega áreitni í þjónustustörfum og ráðstefnu sem haldin var í framhaldinu, ráðstefna í janúar næstkomandi um vaktavinnu og hlutastörf og Fundur fólksins. Að lokum sagði hún frá skipulagi sambandsins og þingi SGS sem haldið er annað hvert ár.
Miklar og góðar umræður urðu á fundinum um starf verkalýðshreyfingarinnar í heild, félagsins og sambandsins í nútíð og framtíð. Einnig var t.d. talað um félagfrelsi, trúnaðarmenn, sjálfboðavinnu, um vinnustaðaeftirlitið og mikilvægi samstarfs félaga í þeirri vinnu og margt fleira.