Það vita það allir sem töluðu við þá Rúmena sem unnu hjá Menn í Vinnu að þar var pottur brotinn. Ég fylgdist vel með í upphafi og ræddi ítarlega við þá sem leituðu aðstoðar. Hvað sem öðru líður þá var það ljóst fyrir mér að þeir voru þolendur þess ómannúðlega kerfis sem við höfum rekið okkar samfélag á síðustu árin. Það var uppgangur í efnahagslífinu í mörg ár, við höfðum ekki mannskap í að vinna þau verk sem þurfti og við fengum fólk að utan til að leggja hönd á plóg. En við höfum aldrei risið undir þeirri ábyrgð sem felst í því að taka á móti erlendu fólki á íslenskum vinnu- og húsnæðismarkaði. Við ætlum þeim lægst launuðu störfin, erfiðustu störfin og lélegasta aðbúnaðinn. Þekking þeirra, færni og menntun er kerfisbundið vanmetin og dæmi eru um atvinnurekendur sem halda frá erlendu launafólki upplýsingum um réttindi þeirra og greiða þeim jafnvel ekki laun í samræmi við kjarasamninga. Eins og komið hefur fram í fundaröð ASÍ, SGS og Eflingar í vikunni búum við í heimi þversagna. „Vinnuaflið“ á að vera hreyfanlegt og aðlaga sig en samfélag okkar er ekki hreyfanlegt eða tilbúið til að aðlaga sig. Til dæmis byggðum við upp heilan ferðamannaiðnað með mikilli opinberri stefnumótun án þess að fjalla um starfsfólkið sem bar uppi þessa þjónustu. Hvaðan það ætti að koma og hvernig við gætum staðið sem best að því? Dómurinn sem féll í vikunni er staðfesting á því að kerfið okkar er laskað og ómannúðlegt hvort sem dómarar telja það rúmast innan laganna eða ekki.
Það er ógnvekjandi hvað hin ósýnilegu störf eru slitin úr samhengi við manneskjur og velferð þeirra. Annað öskrandi dæmi um þetta birtist okkur í vikunni þegar ræstingafólki og starfsfólki þvottahúss á Heilbrigðisstofnun Suðurlands var sagt upp störfum. Farið var í útboð á ræstingunni til að hagræða og var „kostnaður langt undir kostnaðaráætlun“. Það þýðir á mannamáli að starfsfólkið sem sinnir ræstingu og þvottum fær lægri laun og/eða býr við minna öryggi. Fjögur stéttarfélög á Suðurlandi hafa bent á að þetta séu kaldar kveðjur frá yfirstjórn stofnunarinnar og vægast sagt lítilsvirðing við störf þessa hóps sem hefur verið í framlínunni á tímum heimsfaraldurs. Ég tek undir af heilum hug og ætlast til þess að opinberar stofnanir eins og aðrir atvinnurekendur hugsi um launafólk sem manneskjur, ekki eingöngu vinnuafl.
Góða helgi,
Drífa