Forseti Alþýðusambands Íslands segir afnám gjaldeyrishaftanna mikil tíðindi, en þau setji um leið miklar kröfur á stjórnvöld um aga í efnahagsstjórninni. Hann vonast til að væntingar um vaxtalækkun gangi eftir. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sagði í samtali við RÚV í morgun þetta vera mikil tíðindi.
„Jú, ég held að þetta séu auðvitað mikil tíðindi. Þó að þetta hafi ekki bein áhrif á stöðu okkar sem launamenn eða almenning, þá hafa hin undirliggjandi áhrif haftanna verið neikvæð sérstaklega varðandi atvinnuþróun og hvaða tegund atvinnurekstrar hér fæst þrifist. Þannig að ég held að þetta séu jákvæð tíðindi en um leið felst líka í þessu mikil ábyrgð sem að stjórnvöld takast á hendur og Seðlabankinn,“ segir Gylfi.
Gylfi segir ljóst að lífeyriskerfið hafi þörf fyrir að fara með fjármagn úr landi, ekki vera með öll eggin í sömu körfunni. Það hafi sýnt sig í hruninu þegar um þriðjungur fjárfestinga lífeyrissjóðanna hafi verið í útlöndum og það hafi hjálpað launamönnum að verja lífeyri sinn fyrir áfalli.
„Það er líka ljóst að með þessu verða Seðlabanki og stjórnvöld að hafa mikinn aga á stjórn efnahagsmála vegna þess að ekki viljum við að krónan okkar taki kollsteypu, höftin voru jú sett til að koma í veg fyrir það á sínum tíma.“
Hann segir aðstæður fyrir svona aðgerð núna vera hagfelldar og mikilvægt að nýta það, en að sama skapi þurfi stjórnvöld að læra af þeim atburðum sem urðu í aðdraganda hrunsins. Stjórnvöld þurfi að vera með meiri aga í efnahagsstjórninni þannig að ekki verði miklar sveiflur á krónunni.
Bent hefur verið á að aðstæður til að aflétta höftunum núna hafi verið mjög hagstæðar. Inn í það spili ákvörðun aðila vinnumarkaðarins að segja ekki upp kjarasamningum. Gylfi tekur undir það.
„Það breytir því ekki að stjórnvöld og Alþingi eru með í höndunum mikla ábyrgð hvað varðar kjararáð og það að leysa úr því. Það er ljóst að það er að verða að viðmiði um einhverja nýja og breytta launastefnu, launastefnu sem ég óttast að samræmist ekki þessum áformum. Þess vegna ítreka ég það að eftirleikurinn við svona aðgerða er í höndum stjórnvalda, með hvaða hætti þau ætla að axla þessa ábyrgð,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands.