Björn, formaður félagsins, og Halla Björk, forseti bæjarstjórnar á Akureyri, eru ekki alveg á sömu skoðun varðandi hækkanir bæjarins á fasteignagjöldum. Björn ritaði grein í Vikudag sem Halla svaraði en þar sagði Björn m.a. Akureyrarbæ virða að vettugi tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga um að hækka ekki gjaldskrár umfram 2,5% og hækkun fasteignagjalda sé vel umfram það.
Í Vikudegi sem kemur út í dag blandar Drífa Snædal forseti ASÍ sér í umræðuna, m.a. bendir hún á að fasteignagjöld á Akureyri hafi hækkað um 6,35 til 7,7%, mis mikið eftir hverfum og tegund húsnæðis. Einnig bendir hún á að leikskólagjöld hafi hækkað.
Grein Drífu sem birtist í Vikudegi í dag má lesa hér fyrir neðan
Nokkur orð um hækkun fasteignagjalda á Akureyri
Formaður Einingar–Iðju og forseti bæjarstjórnar á Akureyri hafa undanfarið deilt um fasteignagjöld, hækkun þeirra og áhrif. Það er ágætt að nota tækifærið og greina frá nokkrum atriðum varðandi gjöldin í tengslum við lífskjarasamningana sem undirritaðir voru í apríl 2019. Orðrétt segir í yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem var gefin þann 3. apríl í tengslum við samningana:
Til að stuðla að verðstöðugleika mun Samband íslenskra sveitarfélaga mælast til þess við sveitarfélögin að þau hækki ekki gjaldskrár sínar á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmda. Einnig mun sambandið mælast til þess við sveitarfélögin að á árinu 2020 muni gjöld á þeirra vegum hækka um 2,5% að hámarki, en minna ef verðbólga er lægri.
Þessari yfirlýsingu fylgdu fögur fyrirheit sveitarfélaga en það skal hafa alveg á hreinu að tilgangurinn var að allar umsamdar launahækkanir myndu raunverulega gagnast launafólki en yrðu ekki étnar upp með hækkunum annars staðar. Eins og mörg önnur sveitarfélög hækkaði Akureyrarbær leikskólagjöld með fæði um 3,2% og skóladagvistun auk hádegismatar og síðdegishressingu um 2,4%. Hvað varðar fasteignagjöld hafa þau hækkað á Akureyri um 6,35-7,7%, mis mikið eftir hverfum og tegund húsnæðis.
Til að setja þessar hækkanir í samhengi, nemur hækkunin á 8 tímum með fæði á leikskóla 13.288 kr. á ári (sé miðað við 11 mánaða vistun) og hækkunin á skóladagvistun og skólafæði 7.938 kr. á ári (sé miðað við fulla vistun 5 daga vikunnar). Þá nemur hækkun fasteignajgalda fyrir 200 fm einbýli í Glerárhverfi 27.000 krónum á ári. Einstaklingur sem borgar fasteignagjöld auk þess að vera með eitt barn á leikskóla og annað í skóla, á því von á að borga samtals 48.226 kr. meira til Akureyrarbæjar fyrir sömu þjónustu og í fyrra. Einstaklingur sem fékk umsamdar hækkanir í fyrra, 17.000 krónur á mánuði, borgar því um þriggja mánaða launahækkun í hærri gjöld til sveitarfélagsins. Þetta er raunveruleikinn og ég vísa í útreikninga hagdeildar ASÍ því til staðfestingar.
Hækkun fasteignagjalda og annarra gjalda á vegum sveitarfélaga er hluti af þeirri heildarmynd sem skoðuð verður þegar árangur kjarasamninganna verður metinn í haust. Að auki má benda á það að kostnaður við húsnæði og grunnþjónustu er áhrifavaldur þegar fólk ákveður búsetu. Það er því mikið í húfi fyrir stjórnendur sveitarfélaga að vanda sig, greina rétt frá og axla ábyrgð á gjaldtöku sveitarfélagsins.
Drífa Snædal,
forseti ASÍ
Nálgast má forsendur útreikninga og samantekt á breytingum á fasteignagjöldum hér.