Starfsgreinasamband Íslands hefur boðað til formannafundar í dag þar sem farið verður yfir stöðu kjarasamninga og afstöðu félaganna til uppsagnar á þeim. Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, situr fundinn og mun á honum opinbera niðurstöðu félagsins, sem tekin var á fjölmennum félagsfundi sem haldinn var í síðustu viku, um málið. Þann fund sátu félagsmenn í trúnaðarstörfum hjá Einingu-Iðju. Kosið var um hvort segja ætti samningum upp eða ekki. Á fundinn voru boðaðir allir trúnaðarmenn félagsins, trúnaðarráð, stjórnir deilda, stjórn félagsins, svæðisfulltrúar og varasvæðisfulltrúar. Á annað hundrað manns mættu á fundinn eða rúmlega helmingur þeirra sem fengu boð á hann.
Næsta föstudag hefur ASÍ boðað til formannafundar um sama málefni, en það er þriðji fundurinn sem fer fram um málið, en fyrir kl. 16:00 þann 21. janúar nk. þarf samninganefnd ASÍ og framkvæmdastjórn SA að tilkynna hvorum aðila um sig niðurstöðu sína varðandi framlengingu kjarasamninga.