Á morgun, þriðjudaginn 4. desember, heldur Starfsgreinasambandið formannafund sinn og fer hann að þessu sinni fram á Hótel Selfossi. Um er að ræða útvíkkaðan fund, þ.e.a.s. til fundarins eru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi. Auk Björn Snæbjörnssonar, formanns félagsins, mun Anna Júlíusdóttir varaformaður sitja hann.
Á fundinum verða ýmis mál tekin fyrir og má þar á meðal nefna kjaramál, en fulltrúar ASÍ munu mæta og fara yfir stöðu kjarasamninga með gestum fundarins. Meðal annarra dagskrárliða má nefna erindi frá Vinnumálastofnun á Suðurlandi og ASÍ-UNG, kynningu á skýrslu framkvæmdastjóra 2011-2012 og úrvinnslu bókana í kjarasamningum. Gert er ráð fyrir að fundurinn standi frá kl. 10:00 og ljúki um kl. 16:00.