Á vef ASÍ segir að ríkisstjórnin sendi sl. föstudag frá sér yfirlýsingu vegna frumvarps um almannatryggingar sem er til meðferðar á Alþingi. Þar er meðal annars er lagt til að hraða hækkun ellilífeyrisaldurs í 70 ár, þannig hækkun lífeyrisaldurs verði gerð á 12 árum í stað 24 ára líkt og áformað var og breið samstaða hafði náðst um. Þetta er gert á sama tíma og fyrir liggur að jöfnun lífeyrisréttinda er í uppnámi og lífeyrisaldur opinberra starfsmanna verður óbreyttur 65 ár.
Með tillögunni um að hraða hækkun lífeyrisaldurs í almannatryggingakerfinu ganga stjórnvöld gegn niðurstöðu nefndar um endurskoðun almannatrygginga sem skilaði tillögum sínum til félags- og húsnæðismálaráðherra í vor en í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra þingflokka og fjölmargra hagsmunaaðila. Áform voru uppi um að hækkun lífeyrisaldurs yrði gerð samhliða í almannatryggingakerfinu og hjá lífeyrissjóðunum og samhljómur um mikilvægi þess að þessar breytingar héldust í hendur. Breytingartillögur ríkisstjórnarinnar á frumvarpinu eru settar fram án alls samráðs og vekja sannarlega spurningar um tilgang þess að kalla saman nefndir með breiðum hópi fólks sem fundar mánuðum saman til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um mikilvæg hagsmunamál sem svo eru hunsaðar með öllu. Þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru forkastanleg og verða ekki liðin.