Fólki sagt að segja sig á hreppinn

Stjórnvöld hyggjast stytta þann tíma sem fólk án vinnu geta fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Í bandormi sem fylgir fjárlagafrumvarpinu og lagður var fram á Alþingi í gær kemur fram að stytta eigi atvinnuleysistímabil úr þremur árum í tvö og hálft ár.

Áætlað er að þessi breyting spari ríkissjóði 1.130 milljónir króna á næsta ári. Breytingin á að taka gildi um áramót. Frá og með þeim tíma fær fólk ekki lengur greiddar bætur hafi fólk þegið atvinnuleysisbætur í þrjátíu mánuði eða lengur.

Í viðtali við ruv.is sagði Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins, að stytting bótatímabils vegna atvinnuleysisbóta sé aðför að langtímaatvinnulausum. Í raun fái atvinnulaust fólk þau skilaboð að það eigi að segja sig á hreppinn.

Samkvæmt bandormi sem fylgir fjárlagafrumvarpinu á að stytta þann tíma sem fólk á rétt á atvinnuleysisbótum úr þremur árum í tvö og hálft. Þetta á að gerast um áramót samkvæmt frumvarpinu. Þá myndi fólk sem nú hefur verið atvinnulaust í 27 mánuði eða lengur missa bæturnar. Breytingin á að spara ríkissjóði rúman einn milljarð króna.

Björn er ósáttur við breytinguna. „Þetta er fáránleg aðgerð. Það er bara verið að segja við atvinnulausa einstaklinga: Þið eigið að fara á hreppinn. Þið eigið að fara á sveitarfélagið. Það er alveg ljóst að þegar er verið að stytta þetta tímabil um sex mánuði þá verða fleiri sem þurfa að leita á náðir sveitarfélagsins til að geta framfleytt sér. Ég skil ekki í mönnum að gera svona hluti.“

Björn segir að atvinnuástandið hafi verið að styrkjast. Það breyti því þó ekki að þessi breyting verði til þess að margir falli fyrr út af atvinnuleysisskrá en ella. „Þannig að ég tel að þetta sé bara ákveðin aðför að þessu fólki sem fær ekki vinnu.“