Aðalfundur Einingar-Iðju var haldinn í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri í gær, þriðjudagskvöldið 16. apríl. „Það er alveg með ólíkindum hvað þið félagsmenn góðir hafið verið dugleg í félagsstarfinu og gert vinnu okkar í stjórninni og starfsmanna ánægjulega. Það er alveg ljóst að félagið endurspeglar þann mikla auð sem liggur í félagsmönnum, fjölmargir hafa komið til starfa í hinum ýmsum ráðum og nefndum hjá félaginu. Einn ungur félagsmaður sagði við mig um daginn að hann hefði aldrei trúað því að óreyndu að félagið væri svona öflugt og væri að gera svo mikið fyrir félagsmennina. Þessi einstaklingur var nýkominn í samninganefnd félagsins og hafði ekki áður verið virkur í félagsstarfi,“ sagði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, m.a. er hann flutti skýrslu stjórnar á fjölmennum aðalfundi félagsins.
Á fundinum var samþykkt með miklum meirihluta fundarmanna að fela stjórn félagsins að láta skrifa sögu verkalýðs/verkalýðsfélaga á félagssvæðinu er standa Einingu-Iðju frá upphafi til vorra daga.
Margir vinnustaðafundir
Björn sagði frá því að á seinnihluta síðasta árs og í byrjun þessa árs hafa starfsmenn félagsins, í
samráði við trúnaðarmenn, mætt á meira en 30 vinnustaðafundi og hitt á annað þúsund félagsmenn. „Þetta
átak í vinnustaðafundum kom þannig til að við Anna varaformaður sendum bréf til trúnaðarmanna og óskuðum eftir að þeir mundu
standa fyrir slíkum fundum. Við stefnum á að trúnaðarmenn sjái um að við komum einu sinni á ári, í það minnsta, á
vinnustaði þar sem farið verður yfir þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni. Það þurfa ekki að vera vandamál á staðnum
til að fá okkur í heimsókn, bara að hittast og fá upplýsingar og fræðslu,“ sagði Björn.
Björn minntist einnig á könnun sem Capacent Gallup framkvæmdi fyrir félagið og AFL starfsgreinafélag. „Við fengum aftur staðfest í könnun Capacent Gallup, sem gerð var fyrr í vetur, að fólk sé sátt með félagið. Við bættum við okkur frá fyrra ári um 3% hvað ánægju með félagið varðar. Um 95% eru ánægðir með þjónustuna og er það líka aukning frá fyrra ári. Starfsfólk félagsins þakkar fyrir sig og vonar að það geti enn bætt sig. 63,6% svöruðu könnunni nú en voru 44% árið 2011. Stjórnin hefur ákveðið að gera aðra könnun í haust.“
Komandi kjarasamningaár
Björn sagði einnig að komandi ár verður kjarasamningaár og mun mestur tími, allavega hans og varaformanns, fara í þá vinnu.
„Samninganefnd félagsins er búin að gera mjög metnaðarfulla áætlun um vinnu nefndarinnar alveg fram til 11. september, en þá á að
vera búið að skila kröfugerð félaganna til Starfsgreinasambands Íslands, það er að segja þeir sem ætla að vera í samfloti
innan SGS. Samninganefndin hefur þó ekki enn tekið ákvörðun um hvað við gerum.“
Mikið álag
Björn sagði að mikið álagið hefði verið á skrifstofur félagsins á síðasta ári. Starfsmenn fá margar spurningar
varðandi kaup og kjör, en slíkum fyrirspurnum hefur fjölgað mjög undanfarin ár. „Rúmlega 20.000 símhringar komu inn á skrifstofur
félagsins og í gsm síma formanns síðastliðna 12 mánuði eða um 1.735 á mánuði. Það eru um 80 símtöl að
meðaltali á dag, alla virka daga sem opið er,“ sagði Björn og bætti við að mikið hefur mætt á lögfræðingum félagsins
bæði varðandi launakröfur, gjaldþrot og aðstoð við starfsmenn félagsins við að túlka samninga. „Vert er að minna á að
félagið er með samning við PACTA lögmenn um að félagsmenn sem leita til þeirra án þess að félagið hafi milligöngu þar
um, skuli fá 15% afslátt af gildandi gjaldskrá PACTA á hverjum tíma.
Í lok árs 2012 voru 327 félagsmenn Einingar-Iðju á atvinnuleysisskrá, þ.e.a.s. þeir sem létu draga félagsgjöld af atvinnuleysisbótunum. Því miður er alltaf eitthvað um að fólk láti ekki draga af sér slík gjöld og tapi þar með réttindum hjá félaginu. Þetta er þó fækkun um 13 einstaklinga á atvinnuleysiskrá frá árinu á undan.“
Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð
Sjálfkjörið var í stjórn og trúnaðarráð félagsins þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Stjórn
Einingar-Iðju skipa nú: Björn Snæbjörnsson formaður, Anna Júlíusdóttir varaformaður, Halldóra H. Höskuldsdóttir ritari og
síðan svæðisfulltrúarnir fimm, þau Guðrún Þorbjarnardóttir, Ingvar Sigurbjörnsson, Hafdís Kristjánsdóttir,
Margrét Jónsdóttir og Róbert Þorsteinsson, og formenn deildanna þriggja, þau Sigríður K. Bjarkadóttir, Ingvar Kristjánsson og
Margrét H. Marvinsdóttir.
Hér er hægt að nálgast ársskýrsluna í heild sinni, sem inniheldur skýrslu stjórnar sem og ársreikning félagsins.