Kuldi og smá snjókoma stöðvaði ekki Akureyringa og nærsveitunga í að taka þátt í fjölmennustu kröfugöngu í áraraðir sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í dag 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Á annað hundrað manns mættu einnig í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð.
Kjörorð dagsins voru; " Kaupmáttur – Atvinna – Velferð " Gengið var frá Alþýðuhúsinu gegnum miðbæinn og að Hofi, þar sem fram fór dagskrá í tilefni dagsins. Húsfyllir var í Hofi, þar sem Óskar Þór Vilhjálmsson, fulltrúi SFR stéttarfélags í almannaþjónustu, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði, happdrætti og kaffiveitingar. Óskar sagði m.a. í ávarpinu að nú eins og endranær er það samstaðan meðal launamanna sem skilar árangri. „Mörg stéttarfélög eru að hefja undirbúning fyrir næstu kjarasamningaviðræður. Vilt þú taka þátt? Vilt þú vera gerandi í því að skapa launafólki, börnum þínum og foreldrum alvöru velferðarsamfélag? Gefðu þig fram og vertu virkur félagsmaður í að móta samfélag þar sem hagsmunir allra eru virtir! Allir fyrir einn og einn fyrir alla.“
1. maí ávarp stéttarfélaganna við Eyjafjörð 2013
Nú eru nýafstaðnar kosningar um nýja „ráðamenn þjóðarinnar“ og spurt er hvernig þeim muni takast að tryggja að
kjörorð dagsins Kaupmáttur – Atvinna – Velferð verði fullnægt á næstunni. Kaupmáttur er það sem skiptir vinnandi fólki
mestu máli og þó svo laun séu hækkuð þá segir það ekki alla söguna. Verðbólga er ávísun á
kjararýrnun þannig að kaupmáttur minnkar í samfélagi þar sem verðbólgan fær að leika lausum hala, verðlag hækkar og
neytendur eru látnir borga brúsann. Kemur það einna verst niður á rekstri heimilanna. Við vitum öll að matvara hefur hækkað
stjórnlaust, húsnæðiskostnaður hefur margfaldast hjá öllum, stórfelld eignaupptaka hefur átt sér stað hjá stórum
hópi launafólks. Rekstur bifreiðar er orðin munaðarvara, fólk veigrar sér við að kaupa eðlilegar tryggingar,og tómstundir eru orðnar
gæluverkefni og svona mætti lengi telja. Hversu mikil lífsgæði er eðlilegt að miða við hjá þjóð sem er eins auðug eins og
Íslendingar eru? Er það eðlilegt að vinnandi fólk þræli sér út og setji alla sína fjármuni í
fjármálakerfi? Fólk þarf að geta lagt fyrir til að eiga fyrir óvæntum útgjöldum sem ekki gera boð á undan sér. Ansi
margir hafa þurft að ganga freklega á varasjóði og séreignasparnað. Við skulum ekki gleyma því að þeir fjármunir verða
bara notaðir einu sinni. Á sama tíma og þrengt hefur verið að almennu launafólki hefur kjararýrnun hjá auðmönnum og hæstu
tekjuhópunum komið að stórum hluta til vegna lækkunar fjármagnstekna!
Í undanförnum samningum hefur það verið stefna verkalýðshreyfingarinnar að byggja upp kaupmátt til lengri tíma. Forsenda samninganna hefur verið annars vegar að halda verðbólgu í skefjum og skapa um leið samstöðu um að launaþróun hópa verði þeim í hag sem búa við lakari kjör. Mikilvægt er að samfélagið allt taki á með verkalýðshreyfingunni í viðureigninni við verðbólguna. Allir launamenn njóta hags af stöðugu verðlagi og þess vegna er sanngjarnt að allir leggi sitt af mörkum. Í þessari baráttu eiga stundarhagsmunir ekki að ráða för heldur langtímamarkmið.
Atvinna og atvinnumál er hryggjarsúlan í heimilisrekstri hverrar fjölskyldu á Íslandi og hafa löngum verið mikið í umræðunni og hart um þau deilt meðal stjórnmálaflokka, yfirvalda og hagsmunasamtaka. Ýmsir þættir hafa haft mikil áhrif á það hvernig atvinnustefna á Íslandi hefur þróast. En hvernig stendur á því að við sem þjóð skulum ekki ná því að koma hjólum atvinnulífsins á skrið og fjölgað störfum? Landið okkar er ríkt af auðlindum til lands og sjávar, þjóðin er vel menntuð og hugrökk, en það er eins og við getum ekki komið okkur saman um hvernig við stígum skrefin til framfara. Hvað gera framleiðendur þessa lands? Af hverju eru þeir með framleiðslu á íslenskum vörum í Asíu og í austur Evrópu? Af hverju? Hvað finnst okkur um það? Jú, þeir segja að launakostnaður er svo lágur þar! Á meðan laun á Íslandi duga ekki til að framfleyta fjölskyldum. Hver eru þá launin þar? Og hvað eru þetta mörg störf sem með þessum hætti hafa verið flutt úr landi. Erum við meðal þeirra þjóða sem láta aðrar þjóðir vinna hágæðavörur fyrir okkur á launum sem við myndum ekki opna dyr fyrir?
Allir þessir þættir eru síðan forsenda „Velferðar“. Heilbrigði sem byggir á andlegri, líkamlegri og félagslegri líðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings við umhverfi sitt og félagslegum kringumstæðum. Helstu áhersluþættir heilbrigðis eru jákvæð og raunsönn sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra. Allir þurfa að fá tækifæri til að njóta styrkleika sinna og byggja upp trausta sjálfsmynd sem er undirstaða þess að geta tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið líf og eigið heilbrigði.
Skólar, heilbrigðisstofnanir, félagsþjónusta og íþróttafélög þurfa meðal annarra að huga að velferð og vellíðan þegna sinna óháð efnahag og aðstæðum. Börn efnaminni foreldra eiga ekki að vera skilin eftir í myrkum skúmaskotum þaðan sem þau mega horfa á velklædd börn broddborgarana leika sér í sólskininu. Slíkt og þvílíkt er ekki boðlegt í siðaðra manna samfélagi.
Atvinnuleysið bitnar mest á ungu fólki sem litla reynslu hefur af lífsbaráttunni og hafa hvorki lokið framhaldsskóla- eða starfsnámi. Margar leiðir eru til við að aðstoða unga fólkið til að auka þekkingu sína og möguleika, svo það verði meðvitað um stöðu sína á vinnumarkaði.
Nú eins og endranær er það samstaðan meðal launamanna sem skilar árangri. Mörg stéttarfélög eru að hefja undirbúning fyrir næstu kjarasamningaviðræður. Vilt þú taka þátt? Vilt þú vera gerandi í því að skapa launafólki, börnum þínum og foreldrum alvöru velferðarsamfélag? Gefðu þig fram og vertu virkur félagsmaður í að móta samfélag þar sem hagsmunir allra eru virtir!
Allir fyrir einn og einn fyrir alla.
Fyrsta maínefnd stéttarfélaganna á Akureyri.