Mikið fjölmenni safnaðist saman í ágætis veðri á Akureyri í dag, þrátt fyrir að lognið væri á hraðferð, til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir fyrr í dag, 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks.
Kjörorð dagsins eru; „"Húsnæðisöryggi – sjálfsögð mannréttindi“ Gengið var frá Alþýðuhúsinu gegnum miðbæinn og að Hofi, þar sem fram fór dagskrá í tilefni dagsins. Húsfyllir var í Hofi, þar sem Brynjar Karl Óttarsson kennari flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði og kaffiveitingar.
Um hundrað manns mættu einnig í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð, en þar flutti Margrét Jónsdóttir ávarp fyrir hönd 1. maí nefndarinnar.
Brynjar sagði m.a. í ávarpinu í Hofi að „þó ýmislegt hafi áunnist í kjarabaráttu launafólks á undanförnum áratugum megum við hvergi slá slöku við. Sagan sýnir það. Við lifum í þeirri von að nú sé þetta að koma – nú höfum við lært af fortíðinni - nú er takmarkinu náð. En allt er í heiminum hverfult. Þrátt fyrir bærilegan efnhag þarf hinn vinnandi maður stöðugt að vera að berjast fyrir mannsæmandi starfsaðstæðum og launum. Á degi sem þessum verður mér gjarnan hugsað til grunnþjónustunnar. Ég nefni starfsfólk í umönnunarstörfum svo sem á sjúkrahúsum og elliheimilum. Ég nefni kennara og annað starfsfólk menntastofnana. Mér verður einnig hugsað til ellilífeyrisþega og öryrkja. Ungs fólks sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Ekki má gleyma kynbundnum launamun sem því miður er enn við lýði í okkar nútíma samfélagi. Já, baráttan heldur áfram.“