Mikið fjölmenni safnaðist saman í ágætis veðri á Akureyri til að taka þátt í fjölmennri kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir fyrr í dag, 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Á annað hundrað manns mættu einnig í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð.
Kjörorð dagsins eru; „Samstaða í 100 ár – sókn til nýrra sigra!“ Gengið var frá Alþýðuhúsinu gegnum miðbæinn og að Hofi, þar sem fram fór dagskrá í tilefni dagsins. Húsfyllir var í Hofi, þar sem Hildur Sif Sigurjónsdóttir, leikskólakennari á Krógabóli og félagsmaður í KÍ, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og SGS, flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði og kaffiveitingar.
Björn sagði m.a. í ávarpinu að á þessu ári væru 100 ár liðin síðan Alþýðusamband Íslands var stofnað og ljóst að mikið hefur gerst á þessum 100 árum, „en alltaf finnst manni það vera sömu málin sem eru á dagskrá ár eftir ár, að reyna að semja um mannsæmandi laun og verja þau réttindi sem stéttarfélögin hafa þó náð. Það er raunar ótrúlegt að geta ekki, eftir þessi hundrað ár, sagt að við höfum náð takmarkinu! En ef við lítum til upphafsins, höfum við samt náð afar miklum árangri, en það verður aldrei einhver lokasigur, þetta er langhlaup, sem aldrei lýkur.“ Ávarpið í heild má lesa hér.
1. maí ávarp stéttarfélaganna við Eyjafjörð 2016 má lesa hér í heild sinni