Fjölmenni tók þátt í 1. maí hátíðarhöldum

Mikið fjölmenni safnaðist saman í ágætis veðri á Akureyri í dag til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Hátt í 800 tóku þátt í göngunni á Akureyri og einnig var góð mæting í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð. 

Kjörorð dagsins voru; „Jöfnuður býr til betra samfélag.” Gengið var frá Alþýðuhúsinu gegnum miðbæinn að Ráðhústorgi og svo niður í Menningarhúsið HOF, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Anna Júlíusdóttir, varaformaður Einingar-Iðju, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði, þar sem Sveppi og Villi fóru á kostum. Þá söng Jónas Þór Jónasson „Nallann“ í upphafi fundar og lauk hátíðinni með því að syngja Maístjörnuna við undirleik Pálma Björnssonar. Að dagskrá lokinni var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðaborð í Menningarhúsinu HOFI. 

Anna sagði m.a. í ávarpinu að 1. maí, baráttudagur verkalýðsins, var fyrrum mikilvægur dagur í lífi íslensks verkafólks, og hann er það ekki síður í dag, þegar launafólk í landinu stendur í harðvítugri kjarabaráttu með tilheyrandi verkfallsaðgerðum.  „Í gær hófust verkfallsaðgerðir Starfsgreinasambands Íslands og þær halda áfram í þessum mánuði, náist samningar ekki. Aðgerðirnar ná til yfir 10 þúsund félagsmanna aðildarfélaga sambandsins  og munu hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt. Atkvæðagreiðsla vegna verkfallsboðunarinnar sýndi og sannaði að félagsfólk lætur ekki bjóða sér kjarabætur sem mældar eru í örfáum krónum, á meðan samið er við aðrar stéttir um verulegar hækkanir. Allar aðgerðir sem launþegar grípa til, eru því á ábyrgð vinnuveitenda, sem neita að horfast í augu við staðreyndir.“ Ávarpið í heild má lesa hér fyrir neðan. 

1. maí ávarp stéttarfélaganna við Eyjafjörð 2015

Góðir félagar!
Fyrsti maí, baráttudagur verkalýðsins, var fyrrum mikilvægur dagur í lífi íslensks verkafólks,  og hann er það ekki síður í dag,  þegar launafólk í landinu stendur í harðvítugri kjarabaráttu með tilheyrandi verkfallsaðgerðum. 

Á þessum degi gengur launafólk undir rauðum fána og leikinn er alþjóðasöngur verkalýðsins, Internasjónalinn. 

Rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti, sem einmitt er táknrænt fyrir þá baráttu sem íslenskt launafólk stendur í um þessar mundir.

Rauði liturinn táknar líka að „nú sé nóg komið“, auk þess sem hann táknar dagrenninguna – tákn nýrra tíma. 

Stundum er því haldið fram að baráttufundirnir á þessum degi séu úreltir og eigi ekki lengur við. Nær væri að við værum samankomin á fjölskylduskemmtunum og gerðum okkur glaðan dag í sumarbyrjun, eftir langan og dimman vetur.

Kröfugöngurnar 1. maí hafa vissulega breyst með árunum, en kröfurnar hafa  raunverulega ekkert breyst! 

Við berjumst enn gegn taumlausri græðgi auðvaldsins.

Við berjumst enn fyrir jöfnum möguleikum allra í þjóðfélaginu.

Við berjumst enn fyrir réttlátara samfélagi, frelsi, jafnrétti og bræðralagi.

Þegar sagan er skoðuð sjáum við að vissulega hefur verkalýðshreyfingin unnið sigra, þess vegna er 1. maí táknrænn í hugum launafólks. 

Og 1. maí er ekki síður táknrænn í hugum okkar fyrir framtíðina og þá baráttu sem við eigum í  núna, þegar fréttir af verkföllum - eða væntanlegum verkföllum – einkenna alla þjóðfélagsumræðuna.  

Góðir félagar!
Í gær hófust verkfallsaðgerðir Starfsgreinasambands Íslands og þær halda áfram í þessum mánuði, náist samningar ekki. Aðgerðirnar ná til yfir 10 þúsund félagsmanna aðildarfélaga sambandsins  og munu hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt.

Atkvæðagreiðsla vegna verkfallsboðunarinnar sýndi og sannaði að félagsfólk lætur ekki bjóða sér kjarabætur sem mældar eru í örfáum krónum, á meðan samið er við aðrar stéttir um verulegar hækkanir. 

Allar aðgerðir sem launþegar grípa til, eru því á ábyrgð vinnuveitenda, sem neita að horfast í augu við staðreyndir. 

Ef Íslendingar ætla sér að verða samkeppnishæfir við aðrar þjóðir, verða launakjörin að vera sambærileg við aðrar þjóðir. Það er svo einfalt. 

Launþegar eru ákveðnir í að rétta sinn hlut, lögfræðingar og hagfræðingar vinnuveitenda geta engu breytt í þeim efnum. 

Strengjum þess heit á þessum degi að samstaðan verði okkar helsta vopn ! 

Kröfugerðir launþega eru sanngjarnar og hógværar og þjóðin stendur með okkur. 

Þegar kröfugerðirnar voru mótaðar á síðasta ári, leituðust félögin við að hafa víðtækt samráð við félagsmenn, meðal annars voru gerðar skoðanakannanir, þar sem leitað var eftir hugmyndum að launaþáttum kröfugerðanna. 

Við viljum einfaldlega lifa mannsæmandi lífi, en þurfa ekki að treysta á mikla yfirvinnu til þess að láta heimilisbókhaldið ganga upp. 

Harkaleg viðbrögð vinnuveitenda um að allt fari á hausinn, verði gengið að kröfum okkar, fellur ekki í góðan jarðveg hjá þjóðinni. 

Helstu atvinnuvegir þjóðarinnar ganga vel og því fagnar launafólk, en við gerum þá kröfu að hagnaðurinn renni ekki rakleitt í vasa eigendanna, sem halda að nóg sé að stinga íspinna upp í verkafólkið, en hækka stjórnarlaun á sama tíma. 

Góðir félagar!
Samstaða er okkar beittasta vopn !

Rauði liturinn í fánanum táknar að nú sé nóg komið!

Og það er sannarlega nóg komið !

Við skulum strengja þess heit að þessi dagur þjappi okkur enn frekar saman !

Launafólk er ekki dauð tala í excelskjali,sem hagfræðingar geta leikið sér með !

Við vitum að kröfur okkar eru sanngjarnar og raunhæfar! 

Launþegar!

Horfum til framtíðar á þessum degi, þjóðin stendur með okkur í kjarabaráttunni ! 

Réttlætið er okkar megin ! 

Til hamingju með 1. maí „Baráttudag verkalýðsins“!