Fjölmenni tók þátt í 1. maí hátíðarhöldum

Mikið fjölmenni safnaðist saman í blíðunni á Akureyri til að taka þátt í fjölmennri kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í gær, 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Á annað hundrað manns mættu einnig í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð.

Kjörorð dagsins voru; " Samfélag fyrir alla" Gengið var frá Alþýðuhúsinu gegnum miðbæinn og að Ráðhústorgi, þar sem fram fór útifundur í tilefni dagsins. Eftir því sem best er vitað var þetta fyrsti útifundur á Akureyri á 1. maí síðan 1965. Helgi Jónsson, formaður Rafiðnaðarfélags Norðurlands, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði á torginu, þar sem Eyþór Ingi Guðjónsson söng nokkur lög, Skralli trúður var á svæðinu og spjallaði við börn á öllum aldri auk þess að fremja talnagjörning upp á sviði. Þá söng Jónas Þór Jónasson „Nallann“ í upphafi fundar og lauk hátíðinni með því að syngja Maístjörnuna við undirleik Pálma Björnssonar. Að dagskrá lokinni var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðaborð í Menningarhúsinu HOFI.

Helgi sagði m.a. í ávarpinu að Almennt verkafólk hefði samið um 2,8% launahækkun í febrúar sl. og vildi með því standa við þau fyrirheit að stuðla að stöðuleika í peningamálum, og halda verðbólgu niðri. „Síðan hafa ýmsir aðrir launþegahópar sem gert hafa samninga ekki verið tilbúnir að taka þátt í að skapa þann stöðuleika sem um var talað, og og samið um miklu hærri launahækkanir en samið var um á almennum vinnumarkað. Það gengur ekki lengur að bæði ríkisvald og sveitafélög samþykki öll þessi frávik frá þeirri meginstefnu sem lágu til grundvallar þeim kjarasamningum sem gerðir voru í desember og febrúar sl. Það er ekki hægt að sætta sig við að að almennu launafólki sé mismunað með þeim hætti sem gert hefur verið og þolinmæði þess er algjörlega komin að þolmörkum.“ Ávarpið í heild má lesa hér fyrir neðan.

Fleiri myndir frá Akureyri má finna hér.


1. maí ávarp stéttarfélaganna við Eyjafjörð 2014
Hvert er hlutverk íslenskrar verkalýðshreyfingar í dag, auk hefðbundinnar kjarabaráttu. Jú það er að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og jafna tækifæri launafólks og alls almennings í þessu landi. Í nóvember 2013 gaf ríkisstjórn Íslands út þá yfirlýsingu að hún ætlaði að haga stefnu sinni og ákvörðunum út frá þeim markmiðum að stöðuleiki héldist í landinu og að samráð yrði haft við verkalýðshreyfinguna um hin ýmsu mál ekki síst peningamálin. Nú hefur komið á daginn að orðin „stöðuleiki, lág verðbólga aukinn kaupmáttur“ voru og eru bara orðin tóm.

Almennt verkafólk samdi um 2,8% launahækkun í febrúar sl. og vildi með því standa við þau fyrirheit að stuðla að stöðuleika í peningamálum, og halda verðbólgu niðri. Síðan hafa ýmsir aðrir launþegahópar sem gert hafa samninga ekki verið tilbúnir að taka þátt í að skapa þann stöðuleika sem um var talað, og og samið um miklu hærri launahækkanir en samið var um á almennum vinnumarkað. Það gengur ekki lengur að bæði ríkisvald og sveitafélög samþykki öll þessi frávik frá þeirri meginstefnu sem lágu til grundvallar þeim kjarasamningum sem gerðir voru í desember og febrúar sl. Það er ekki hægt að sætta sig við að að almennu launafólki sé mismunað með þeim hætti sem gert hefur verið og þolinmæði þess er algjörlega komin að þolmörkum .

Það er líka með öllu ólíðandi að fólk skuli þurfa að neita sér um þjónustu heilbrigðisstofnana og kaupa á lyfjum vegna kostnaðar. Á sama tíma kemur fram á Alþingi frumvarp frá háttvirtri ríkisstjórn þar sem kveðið er á um að heimilt verði að greiða kaupauka til starfsmanna fjármálafyrirtækja allt upp á tvöföldun árslauna þeirra. Það er ríkisvaldinu til háborinnar skammar að leggja línu um slíka óráðsíu innan fjármálafyrirtækja. Við þurfum ekki annað en skoða launaþróun undanfarinna ára hjá þessum fjármálafyrirtækjum, þá sést að launaskrið innan þeirra er miklu meira en gerist á almennum vinnumarkaði.

Stjórnvöldum er í lófa lagið að draga úr misskiptingu í samfélaginu en það verður ekki gert með slíkum öfgum bara í eina átt. Það væri nær að nýta mögulegt svigrúm til að hækka laun á almennum vinnumarkaði í stað slíkrar óráðsíu. Það er ekki boðlegt að stjórnvöld fari fram með þessum hætti þegar almennt launafólk þessa lands er á fullu að leita leiða til að skapa stöðugleika, m.a. með hóflegum launahækkunum. Það er engin hætta á að launafólk þessa lands láti bjóða sér slíkt öllu lengur. Það er eins og stjórnvöld séu á annarri plánetu en almenningur í þessu landi. Slík er framkoman. Það hlýtur að vera krafa okkar í komandi kjaraviðræðum að slíkt kaupaukakerfi verði komið á hjá almennum launþegum dragi ríkisstjórnin ekki frumvarpið tilbaka.

Það hefur færst í vöxt að einstaklingar og fjölskyldur hafi ekki efni á að búa í mannsæmandi húsnæði af fjárhagslegum ástæðum og þurfa þess vegna að sætta sig við óásættanlegar aðstæður í þeim efnum. Eins er fólki gert erfitt fyrir að kaupa eða reka eigið húsnæði vegna núverandi aðstæðna í þjóðfélaginu. Þetta er með öllu óásættanlegt. Þá er menntakerfið í dag ekki að svara kröfum um möguleika til náms sem svara þörfum einstaklinga og atvinnulífs. Eins hefur kostnaður vegna framhaldsnáms margfaldast og stór hópur fólks hefur ekki efni á að senda börn sín í framhaldsskóla.

Þessi staða gerir það að verkum að atvinnulífið staðnar og litlar sem engar framfarir verða til í íslensku samfélagi. Er það þetta sem við viljum? Svarið er NEI.

Þúsundir einstaklinga eru atvinnulausir í dag. Ekki síst unga fólkið sem hefur aldrei náð að festa sig í sessi á vinnumarkaði, m.a. vegna skorts á möguleikum til að mennta sig vegna kostnaðar. Atvinna fyrir alla er að sjálfsögðu krafa í dag og lykillinn að virkri þátttöku í samfélaginu. Virkni og almenn atvinnuþátttaka er jafnframt mikilvæg forsenda og undirstaða velferðarsamfélagsins. Við viljum ekki þessa þróun, sem virðist vera að koma upp í íslensku samfélagi. Ekki heldur svona samfélag. Við viljum samfélag þar sem allir fá að njóta sín og fá tækifæri til að blómstra, burt séð frá efnahagsstöðu. Það er og á að vera hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að byggja upp og standa vörð um réttlátt samfélag.

Fyrsta maínefnd stéttarfélaganna á Akureyri.