Vert er að benda á að Vinnueftirlitið býður upp á fjölbreytt námskeið tengd vinnuvélum, vinnuvernd, efnum og efnahættum. Flest námskeiðin eru kennd í gegnum Teams fjarfundakerfið. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir námskeið sem haldin eru reglulega.
Vinnuvélanámskeið
- Frumnámskeið: Námskeiðið veitir bókleg réttindi á minni vinnuvélar eins og dráttarvélar og lyftara. Námskeiðið er haldið reglulega á íslensku, ensku, pólsku og fleiri tungumálum.
Vinnuverndarnámskeið
- Netnámskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði: Námskeiðið er í boði mánaðarlega. Það er hugsað fyrir öryggistrúnaðarmenn og -verði og aðra sem hafa áhuga á vinnuverndarmálum. Námskeiðið er aðgengilegt þátttakendum í sjö daga. Það tekur um tólf klukkustundir að fara í gegnum efnið en hægt er að skipta því upp að vild innan tímarammans.
- Félagslegt vinnuumhverfi: Á námskeiðinu er meðal annars fjallað um hvað vinnustaðir geta gert til að greina og meta áhættuþætti sem tengjast félagslega vinnuumhverfinu. Einnig er farið yfir stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustað.
- Líkamsbeitingarnámskeið: Ýmist er boðið upp á almenn eða sértæk líkamsbeitingarnámskeið. Má þar nefna líkamsbeiting á skrifstofunni, líkamsbeiting við umönnun, líkamsbeiting við þjónustustörf og líkamsbeiting fyrir ökumenn.
- Áhættumat - grunnnámskeið: Á námskeiðinu er kennd einföld og markviss aðferð við gerð áhættumats á vinnustað.
- Vinna í hæð: Megináhersla námskeiðsins lýtur að vinnu í hæð og notkun viðeigandi fallvarnarbúnaðar. Fjallað er um þær hættur sem geta skapast og mikilvægi forvarna og viðbragðsáætlana.
Efni og efnahættur
- Asbestnámskeið: Á námskeiðinu er fjallað um meðhöndlun asbest. Námskeiðið er þriggja tíma réttindanámskeið fyrir þá sem hyggjast vinna við tilkynningaskylt asbestniðurrif.
- ADR- grunn- og framhaldsnámskeið: Grunnnámskeiðið veitir réttindi til að flytja hættulegan farm sem stykkjavöru fyrir utan geislavirk og sprengifim efni. Á framhaldsnámskeiðum er ýmist hægt að öðlast réttindi til að flytja hættulegan farm í tönkum, geislavirkan farm eða sprengifiman farm.
Allar nánari upplýsingar og dagsetningar er að finna undir liðnum fræðsla á heimasíðu Vinnueftirlitsins vinnueftirlit.is. Skráning fer fram á skraning.ver.is.