Í jólablaði félagsins má finna eftirfarandi umfjöllun um SÍMEY - Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar.
Í síkvikum og breytilegum heimi er menntun af ýmsum toga æ mikilvægari. Þjóðfélagið hefur smám saman orðið flóknara og sérhæfðara sem krefst í senn sérhæfðari þekkingar og breiðari kunnáttu starfsfólks. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar leggur áherslu á að koma til móts við þarfir almennings og atvinnulífsins í þessum efnum. Miðstöðin starfar samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu og er með þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
SÍMEY hefur starfað á þriðja tug ára og hefur í öll þessi ár haft það að leiðarljósi að efla símenntun fólks á starfssvæðinu, að fólk hafi aðgang að hagnýtu og góðu námi á öllum skólastigum. Þetta meginmarkmið hefur ekki breyst í tímans rás en leiðir að því marki hafa vissulega breyst í takti við t.d. tæknibreytingar. Fyrir nokkrum árum var nánast allt námsframboð í staðnámi, bæði í höfuðstöðvum SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri, starfsstöð SÍMEY á Dalvík og víðar, en þetta hefur breyst mjög á undanförnum árum. Í auknum mæli er nám, bæði á lengri námsbrautum og styttri námskeiðum, veflægt. Þetta auðveldar fólki að sækja sér þá þekkingu sem hugur þess stendur til óháð búsetu. Að sönnu er þetta byltingarkennd breyting en aðeins byrjunin. Tækninni fleygir fram og víst má telja að á komandi árum verði frekari skref tekin í þessum efnum.
SÍMEY hefur sannarlega mikilvægu hlutverki að gegna við að hækka menntunarstig á starfssvæði miðstöðvarinnar. Starfsfólk býr yfir mikilli þekkingu og reynslu og leggur sig fram um að þjónusta fólk eins vel og þess frekast er kostur. Það er gömul saga og ný að fyrir marga sem ekki hafa setið lengi á skólabekk er oft stærsta hindrunin í því að hefja aftur nám að taka skrefið, að láta slag standa. Þegar síðan námið er hafið skilur fólk ekkert í því af hverju það hefur ekki fyrir lifandi löngu drifið sig í nám.
SÍMEY er með fjölbreytt námsframboð, bæði lengri námsbrautir og styttri námskeið, og vert er að undirstrika að félagsmenn margra stéttarfélaga, þar á meðal Einingar-Iðju, geta fengið styrki frá þeim og fræðslusjóðum til þess að stunda nám sitt.
Auk námsbrauta sem byggja á námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og styttri námskeiða hefur SÍMEY lengi boðið upp á íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna og einnig er lögð áhersla á að veita einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum alhliða þjónustu þegar kemur að starfsþróun og sí- og endurmenntun. Og ekki má gleyma raunfærnimati sem löng hefð er fyrir að SÍMEY bjóði upp á. Í því fellst að metin er samanlögð færni einstaklings, þar með talin starfsreynsla, starfsnám, frístundanám, skólanám, félagsstörf og fjölskyldulíf. Út úr raunfærnimati kemur staðfesting og mat á raunfærni einstaklingsins, færni hans og þekking er dregin saman á einn stað sem síðan er hægt að meta á móti formlegu námi eða kröfum atvinnulífsins. Engin starfsgrein er SÍMEY óviðkomandi í þessum efnum og reynslan hefur sýnt að raunfærnimat er ómetanlegt tæki fyrir fólk hafi það áhuga á að stíga skref í átt að frekari þekkingaröflun og styrkja þannig stöðu sína á vinnumarkaði.
Allar upplýsingar um það sem SÍMEY stendur fyrir eru aðgengilegar á heimasíðu miðstöðvarinnar – www.simey.is og auk þess er starfsfólk SÍMEY fúst að veita allar upplýsingar og leggja fólki lið á allan hátt.