Aftur orðið uppselt í utanlandsferðina

Aukasætin sem félagið fékk í utanlandsferðin seldust upp um leið og þau voru auglýst.

Það varð uppselt í utanlandsferðina svo að segja strax og opnað var fyrir skráningar en við fengum fleiri sæti. Eins og staðan er núna eru fjögur sæti laus í ferðina. Áhugasamir verða að vera snöggir að ákveða sig miðað við viðbrögðin er skráning fór af stað í byrjun janúar.

Ítölsku Alparnir og Garda 6. til 14. júní 2020

Farið verður til Ítalíu dagana 6. til 14. júní 2020.

Flogið verður frá Keflavík til Munchen og heim aftur til Keflavíkur frá Mílanó.

Á fyrsta degi verður flogið frá Keflavík til Munchen og ekið sem leið liggur til þýska skíðabæjarins Garmisch-Partenkirchen. Gist verður eina nótt á Hotel Königshof

Á öðrum degi verður haldið suður á bóginn yfir Brennerskarð í Austurríki til Brixen í Suður-Tíról á Ítalíu. Gist á Hotel Grüner Baum í fimm nætur. 

Á þriðja degi verður farin dagsferð til Dólómítafjallgarðsins sem er einn þekktasti fjallgarður í Ölpunum. Hann er á heimsminjaskrá UNESCO. Farið með kláf upp á Pordojfjall sem er í um það bil 3.000 metra hæð. Á heimleið ekið fram hjá Rosengarten-tindunum

Á fjórða degi verður farið til Alpa-bæjarins St. Ulrich í Val Gardena sem er afar fallegur og þekktur fyrir útskurð. Þetta er fæðingarstaður Sigurðar Dementz óperusöngvari og tónlistarkennara. Farið verður með kláf upp á Seiser Alm, sem er hæsta hálendisslétta Evrópu.

Á fimmta degi verður ekið til Merano, borgin var áður höfuðborg Tíról. Á heimleiðinni verður klaustrið Neustift heimsótt og þar verður vínsmökkun.

Á sjötta degi förum við með kláfi upp á heimafjall Brixen sem heitir Plose (2.542 metrar).

Á sjöunda degi kveðjum við Brixen og höldum til Rovereto í Vallagarina í nágrenni Gardavatns. Gist á Hótel Leon d‘Oro í tvær nætur. 

Á áttunda degi verður farið í siglingu á Gardavatni frá bænum Riva del Garda til bæjanna Limone og Malcesine. Eftir siglingu er frjáls dagur í Riva.

Á níunda degi verður ekið til Milanó og flogið heim til Íslands kl. 20:40. Lending í Keflavík kl. 22:55.

  • Leiðsögumaður verður Harpa Hallgrímsdóttir og fararstjóri Björn Snæbjörnsson.
  • Verð kr. 262.000 á mann í tveggja manna herbergi en kr. 292.000 í eins manns herbergi. Óafturkræft staðfestingargjald er kr. 50.000 sem þarf að greiða innan 10 daga frá pöntun.
  • Athugið! Boðið verður upp á rútuferð til Keflavíkur 5. júní og heim 14. júní. Einnig verður boðið upp á gistingu í Keflavík aðfararnótt 6. júní ef einhver óskar eftir því.
  • Dregnir verða 18 orlofspunktar frá punktaeign þeirra sem fara í ferðina.
  • Innifalið í verði:
    • Akstur: Allur akstur  erlendis.
    • Flug: Keflavík – Munchen - Mílanó - Keflavík.
    • Gisting: 8 nætur í tveggja manna herbergjum á hótelum með morgunverði.
    • 8 kvöldverðir innifaldir erlendis.
  • Ekki innifalið í verði:
    • Ferðir og gisting innanlands.
    • Aðgangseyrir í söfn, kláfa  og aðra áhugaverða staði erlendis þar sem þarf að borga inn.
    • Vínsmökkun.
    • Sigling á Gardavatninu.

Allar nánari upplýsingar um ferðatilhögun og skráning í ferðirnar er á skrifstofum félagsins, sími 460 3600 eða netfangið ein@ein.is. Frá 3. janúar 2020 var hægt að skrá sig í utanlandsferðina og í ferðina út í Flateyjardal. Athugið að síðar verður auglýst hvenær byrjað verður að skrá í eins dags ferðina fyrir eldri félagsmenn.