Fjárlagafrumvarpið þarf að endurskoða tafarlaust

Á stjórnarfundi í gær samþykkti stjórn félagsins eftirfarandi ályktun um fjármálafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Stjórnin lýsir þar m.a. yfir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið og þeim skerðingum sem í því má finna.

Fjárlagafrumvarpið þarf að endurskoða tafarlaust

Stjórn Einingar-Iðju lýsir yfir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og þeim skerðingum sem í því má finna. Á síðustu árum hefur almennt launafólk tekið á sig miklar skerðingar með minnkandi tekjum og auknum útgjöldum sem leitt hafa til minni kaupmáttar. Á meðan eru tekjur ríkissjóðs skertar um tugi milljarða með því að aflétta sköttum af fyrirtækjum og einstaklingum sem vel eru aflögufærir.

Nú á enn og aftur að auka álögur á almennt launafólk og niðurskurðarhnífnum beint að þeim sem síst skyldi. Atvinnulausum, lífeyrisþegum, sjúklingum, þeim sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda og þeim sem hafa minnstu menntunina.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar halda því fram að mótvægisaðgerðir muni bæta hag heimila í landinu að meðaltali, en það meðaltal hallar verulega á þá sem lægri hafa launin og virðist sem hópurinn sé ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni. Hækkun barnabóta og breytingar á vörugjöldum jafna ekki út hækkun matvæla hjá þeim sem lægst hafa launin. Fjölmargir launþegar sem eru með lágar- og millitekjur eru barnlausir eða með eldri börn á framfæri og of margir sem ekki geta veitt sér þann munað að vera tíðir gestir í verslunum sem geta lækkað verð í kjölfar afnáms almennra vörugjalda.

Stjórn Einingar-Iðju mótmælir harðlega þeirri aðför sem stjórnvöld eru í gegn þeim sem eru í atvinnuleit, sérstaklega þeim einstaklingum sem hafa verið hvað lengst án atvinnu. Skerðing á bótarétti getur kippt fótunum undan lífsafkomu fjölda fólks og atvinnuleysi mun ekki minnka við það að velta vandanum yfir á sveitarfélögin.

Stjórn Einingar-Iðju gerir mjög alvarlegar athugasemdir við:
• Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts úr 7% í 12%
• Skerðingu réttar til atvinnuleysisbóta
• Svik við gefin fyrirheit um framlag til VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs
• Skerðingu framlaga til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða
• Skert framlög til mennta-, heilbrigðis- og vinnumarkaðsmála

Að óbreyttu er ljóst að það stefnir í hörð átök á vinnumarkaði því ofangreind atriði auðvelda ekki þá kjarasamningsgerð sem framundan er. Stjórn Einingar-Iðju skorar á ríkisstjórn Íslands að endurskoða tafarlaust framkomið fjárlagafrumvarp.

Ábyrgðin er ekki bara okkar.

Akureyri, 30. september 2014
Stjórn Einingar-Iðju